149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[18:36]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingar á lögum um verslun með áfengi og tóbak, lögum um aukatekjur ríkissjóðs, lögum um landlækni og lýðheilsu og lögum um fjölmiðla, með síðari breytingum, þ.e. smásölu áfengis. Eins og segir í greinargerð fjallar frumvarpið í meginatriðum um að einokunarfyrirkomulag ríkisins með löglega neysluvöru hamli eðlilegri og heilbrigðri samkeppni og skerði atvinnufrelsi fólks og löngu tímabært að breyting verði á því fyrirkomulagi sem um ræðir. Auka þurfi bæði aðgengi að áfengi og aðgengi framleiðenda að markaðnum þar sem við séum orðið með matarmenningu hér sem vín sé órjúfanlegur hluti af auk þess sem innlend framleiðsla áfengis sé töluverð og að festa sig í sessi.

Framsögumenn frumvarpsins segja að aukið aðgengi að áfengi kalli á aukinn vanda þeirra sem geti ekki stillt neyslu sinni í hóf og sé hún skaðleg þeim einstaklingi sem haldinn sé þeirri fíkn sem áfengi geti skapað. Því verði ákveðið áfengisgjald lagt á sem verði síðan sett í forvarnir. Einnig er talað um að heimila auglýsingar á áfengi innan ákveðinna marka.

Eftir lestur á frumvarpinu finnst mér nokkrar andstæður kallast á, bæði er talað um markaðinn og að aðgengi verði auðveldað en að sama skapi eigum við passa okkur og vinna að forvörnum til að minnka neyslu á áfengi.

Þetta frumvarp er ekki nýtt af nálinni. Það hefur verið lagt fram nokkrum sinnum áður í svipaðri mynd. Mér hefur alltaf fundist vera nokkrar þversagnir í þeim rökum sem hafa verið færð fyrir málinu. Ég man eftir þeim rökum fyrir nokkrum árum að þetta myndi efla litlar verslanir á landsbyggðinni, jafnvel í litlum þorpum þar sem verslanirnar væru að lognast út af. Til andstöðu við það spyr ég: Hvert er þá aðgengi þeirra sem búa í hinum dreifðu byggðum að áfengi?

Nú höfum við verslanir í hverjum landshluta og flestum stærri byggðarlögum þar sem við getum keypt áfengi innan ákveðins opnunartíma og valið úr nokkrum tegundum. Ég get ekki séð að aðgengi landsbyggðarmanna sem búa í dreifðari byggðum verði aukið. Ég tel að ÁTVR standi sig ágætlega í því að hafa ákveðið úrval sem fólk getur leitað í. Ég held að aðgengi að áfengi verði frekar minna í hinum dreifðari byggðum ef þetta frumvarp nær fram að ganga.

Það er reyndar ekki lagt til í frumvarpinu að ÁTVR verði gert að hætta smásölu á áfengi. Það kallar engu að síður á að starfsemi ÁTVR verði tekin til endurskoðunar í kjölfar lögfestingar frumvarpsins. Maður myndi því ætla að hlutverk þess minnkaði með því.

Ef við snúum okkur að forvarnavinklinum fjöllum við í velferðarnefnd um mörg stór og mikil mál. Nánast undantekningarlaust höfum við fengið margar góðar umsagnir um málin. Við erum t.d. að fjalla um heilbrigðisstefnuna núna og snúa umsagnirnar að því að við þurfum að efla forvarnir og lýðheilsu. Ef við horfum á önnur mál kemur alltaf upp að framtíðarstef í heilbrigðisstefnu og heilbrigðismálum séu forvarnir og lýðheilsa. Þess vegna finnst mér þetta frumvarp hálfmjóróma inni í þeirri umræðu. Ég get ekki séð að við séum að taka mikilvægt skref í forvarnamálum þótt við leggjum eitthvert ákveðið gjald á áfengi sem á að fara beint í forvarnir.

Eins og ég sagði hefur málið verið lagt fram áður á þingi og borist um það ýmsar umsagnir. Mig langar að vitna í mjög góðar umsagnir. Það er t.d. bent á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þar skal það sem er barni fyrir bestu ávallt hafa forgang við ráðstafanir sem varða börn. Þetta þýðir að við allar samfélagslegar ákvarðanir sem teknar eru og varða líf barna verður að hafa sjónarmið um það sem barni er fyrir bestu í forgrunni.

Líkt og kom fram í ræðu á undan erum við að tala um aukið aðgengi. Ég held að við séum að tala um að þegar þetta verður gefið frjálst inn í verslanir aukist samkeppni sem leiði til þess að áfengisverð lækki. Við erum að tala um að við viljum hafa forvarnir fyrir börn, við skulum segja frá fermingu, frá 14 ára aldri til tvítugs. Það hefur verið talin forvörn að börn hafi ekki aðgang að áfengi og hefur verð á áfengi m.a. hamlað því, börn hafa ekki mikil fjárráð. Ef við opnum frekar á það, sem ég held að sé hugsun flutningsmanna frumvarpsins, aukum aðgengi og lækkum verð, erum við að tala um viðkvæman hóp. Annar viðkvæmur hópur er fíklar sem hafa ánetjast áfengi. Þeir eru oft ekki á vinnumarkaði og hafa ekki mikil fjárráð. Þetta eykur á vanda þeirra.

Í umsögn Barnaverndarstofu frá 2017 segir að hvað varði smásölu á áfengi telji Barnaverndarstofa ástæðu til að árétta sérstaklega fyrri umsagnir sínar um frumvörp sem varði sama efni, með leyfi forseta:

„Leggst Barnaverndarstofa eindregið gegn því að smásala áfengis verði gefin frjáls þar sem slíkt skapar aukna hættu á að börn geti nálgast áfengi en rannsóknir hafa sýnt að aukið aðgengi á áfengi leiðir til aukinnar neyslu.“

Mér þótti mjög áhugaverð önnur umsögn sem send var inn. Það var misserisverkefni frá Háskólanum á Bifröst þar sem nemendur tóku að sér að kanna hugsanleg samfélagsleg áhrif frumvarpsins sem þá var fyrir hendi, frá 2014, um frjálsa sölu áfengis. Nemendurnir tóku nokkur atriði fyrir og var niðurstaða þeirra skýr. Með leyfi forseta langar mig að vitna til hennar. Þar segir t.d.:

„Ætla má að hagur þeirra verslana sem myndu selja áfengi vænkist verði frumvarpið að lögum og þá helst í formi aukinnar veltu. Flestar verslanir hafa nægt verslunarrými auk þess sem starfsmannakostnaður þyrfti ekki að aukast mikið þó umræddri vöru yrði bætt við vöruúrval verslana.“

Hérna erum við væntanlega að tala um stórar verslanir á höfuðborgarsvæðinu. Við getum alveg séð fyrir okkur að verslanir myndu hoppa strax á þetta og auka aðgengi og jafnvel yrðu stórar verslanir opnar allan sólarhringinn.

Hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir kom inn á félagaþrýsting. Við sjáum þegar við komum inn í stórar verslunarkeðjur í Reykjavík að það eru ungir krakkar að afgreiða. Við ætlum ekki að lækka áfengiskaupaaldurinn í frumvarpinu en augljóst það yrði ákveðinn félagaþrýstingur í því efni. Þetta gæti orðið svolítið erfitt.

Ég vitna aftur í niðurstöður í misserisverkefninu:

„Flestar rannsóknir benda til þess að bein tengsl séu á milli aukinnar áfengisneyslu og lýðheilsuvanda og félagslegs vanda.“ — Allt ber að sama brunni. — „Aukin tíðni sjúkdóma og veikindadaga frá vinnu sem er afleiðing af notkun áfengis heyra til lýðheilsuvanda. Aukið ofbeldi, ölvunarakstur og afbrot eru dæmi um þann félagslega vanda sem fylgir aukinni áfengisneyslu.“

Ég held að þótt við leggjum á ákveðinn skatt sem á að renna til forvarna í þeim málum taki það ekki utan um þann vanda sem myndi aukast í samfélaginu og þann kostnað sem samfélagið yrði af, ef til þess kæmi.

Þá vitna ég enn í misserisverkefnið:

„Aukin áfengisnotkun almennings hefur í för með sér mikinn kostnað fyrir samfélagið og sýnt er að áhrifavirði af áfengisneyslu er um 50 milljarðar á ári og hækkar sá kostnaður um 10–20 milljarða þegar einnig er tekið tillit til ótímabærra dauðsfalla. Rekja má 48% af banaslysum í umferðinni á árunum 2004–2008 til ölvunar- eða vímuefnaneyslu og þar af eru 28% beintengd áfengisneyslu.“

Hér er verið að vitna í rannsókn sem var gerð í þeim efnum.

Talað er um að viðbrögð neytenda við verðbreytingum á áfengi séu svipuð á milli landa, verðhækkun minnki sölu og dragi úr neyslu og nái áhrif verðhækkana til lengri tíma frekar en skemmri, sem sé mikilvægt með tilliti til lýðheilsu.

Með frumvarpinu aukum við aðgengi, aukum samkeppni, lækkum verð og munum því þurfa að horfast í augu við stærri vanda.

Að lokum segir í verkefninu:

„Mælanlegum árangri hefur verið náð í forvörnum gegn áfengi á Íslandi og má þakka góðu forvarnastarfi að áfengisneysla Íslendinga er lægri en í öðrum Evrópulöndum. Þegar borin er saman áfengisneysla á Íslandi og á hinum Norðurlöndunum má sjá að hún er lægst hér á landi sé neysla unglinga tekin með í dæmið. Þær forvarnir sem gefa bestu raun og hagkvæmustu leiðirnar til að minnka skaða af áfengi felast í háu verðlagi, stýringu á aðgengi, auglýsingabanni, háu aldurstakmarki og styttri opnunartíma. “

Ef þetta verður niðurstaðan erum við frekar að auka á vandann. Ég held að við yrðum þá komin í hring og þyrftum að takast á við það. Ég tel mikilvægt að þetta frumvarp fari ekki í gegn.