149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[19:09]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég verð að viðurkenna að mér þykir leitt að sérstakir áhugamenn um aukna áfengissölu sem hafa flutt fram þetta frumvarp skuli ekki vera hér og taka þátt í umræðunni með okkur. Mér þykir það vont. Í fyrri ræðu minni í 1. umr. ræddi ég mest um lýðheilsuleg áhrif af frumvarpi eins og þessu, en í þessari ræðu minni ætla ég frekar að tala um markaðsendann. Samt vil ég byrja á að segja að það er eiginlega ein efnisgrein í greinargerðinni með frumvarpinu sem ég er sammála. Á bls. 6 segir nefnilega, með leyfi hæstv. forseta:

„Óhófleg neysla áfengis er skaðleg. Hún er skaðleg þeim einstaklingi sem haldinn er slíkri vímuefnafíkn og böl fyrir fjölskyldu hans og vandamenn. Samfélagið verður jafnframt fyrir ýmsum kostnaði vegna óhóflegrar og ólögmætrar neyslu áfengis.“

Þetta get ég tekið heils hugar undir. Reyndar segir í næstu setningu á eftir:

„Árangursríkasta leiðin til að draga úr misnotkun áfengis er með forvarnastarfi, fræðslu og meðferðarúrræðum.“

Þarna er ég líka sammála. Og ég get sagt það með sanni að ef allar aðrar greinar en þær greinar sem varða það að hækka framlög til lýðheilsumála út af áfengi, þ.e. forvarnamála og lýðheilsumála, yrðu þurrkaðar út myndi ég samþykkja þetta frumvarp umsvifalaust.

Þeir ágætu hv. flutningsmenn sem ekki eru hér staddir setja líka eftirfarandi inn í greinargerðina þar sem talað er um áfengismenningu, áfengisneyslu og það allt saman:

„Þá hefur aðgengi að áfengi á undanförnum árum og áratugum stóraukist og útsölustöðum ríkisins með áfengi hefur fjölgað.“

Þetta er rétt, en að hluta, vegna þess að úti um land voru pósthús dreifingarstöðvar fyrir áfengi. Nú er búið að loka pósthúsum mjög víða um land, en það eru til áfengisverslanir. Hér á höfuðborgarsvæðinu hefur fjöldi áfengisverslana nær ekki aukist undanfarin 10–20 ár, ef ég fer ekki rangt með. Það var búið að loka einni þeirra, hún var opnuð aftur, þannig að nettóáhrifin voru kannski núll. En málið er að flutningsmenn þessa frumvarps og helstu áhugamenn um það vilja halda áfengi til haga, þ.e. verslunarkeðjunnar Haga.

Það sést vel á því að þarþarþarsíðast þegar þetta mál var lagt fram komu fram þrjár jákvæðar umsagnir. Þær voru frá Viðskiptaráði, frá kaupmannasamtökunum sem ég held að heiti núna Samtök atvinnulífsins og frá verslunarkeðjunni Högum. Það voru þrjár jákvæðar umsagnir af um 50. Og hvað hefur líka gerst? Menn halda að með því að setja áfengi í þetta sinn inn í sérverslanir en ekki stórmarkaði séu þeir í sjálfu sér ekki að efla stórmarkaðina. Það er náttúrlega firra vegna þess að nú þegar hefur verslunarkeðjan Hagar, í gegnum dótturfyrirtæki sitt Aðföng, umboð fyrir nokkra tugi léttvína sem er að finna í sölu hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Það sem menn eru að hugsa með þessu frumvarpi er náttúrlega að byggja undir kaupmenn í landinu. Og menn eiga ekki að vera að fela sig í því efni. Þeir eiga bara að koma rétt fram og segja: Það er þetta sem við stefnum að. Menn myndu gera vel í því að koma heiðarlega fram að þessu leyti.

Nú er tími minn að verða búinn og ég verð líklega að bíða þangað til í næstu umræðu, þ.e. 2. umr., til að komast að aftur. Ég vil þó segja aftur: Eini tilgangurinn með frumvarpinu er að auka veg verslunar í landinu. Ég orðaði það þannig í fyrri ræðu minni og ég ætla að taka það upp aftur hér, að menn geti gert sér böl annarra að féþúfu, því að það er það sem er verið að tala um í þessu frumvarpi. Neyslan mun aukast upp í 11 lítra á mann af hreinum vínanda á ári ef þetta verður að lögum. Það mun hafa ófyrirséðar afleiðingar í för með sér.