149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[19:16]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Mér er mjög ljúft að fara yfir það hvernig þær tölur sem ég hef sett fram hafa borist til mín. Sænsk heilbrigðisyfirvöld bjuggu til líkan um það hvað myndi gerast ef þau færu aftur í tilraun, eins og gert hafði verið áður, og færu að selja áfengi í matvöruverslunum og/eða í sérverslunum utan áfengiseinokunarsölu. Aukningin á neyslu sem fylgdi samkvæmt líkaninu harmónerar ágætlega við reynsluna sem við höfum, þ.e. neysluaukningarreynsluna frá því að bjórinn var leyfður 1989.

Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um að við snúum tímanum ekki við. Við förum ekki að banna bjór eftir að hafa verið að neyta hans í 30 ár. Það gerum við ekki. En við eigum að læra af reynslunni. Við höfum þessa reynslu, við vitum hvað hefur gerst frá 1988 og fram á þennan dag. Við getum sagt okkur sjálf að ef við stígum þetta skref í viðbót förum við í þá vegferð sem ég nefndi áðan, þá förum við í 11 lítra af hreinum vínanda á ári á mann, sem er það sama og Danir, Bretar og Þjóðverjar eru að nota.

Ég minntist á það í fyrri ræðu minni í þessari umferð að ég las í fyrra grein í Politiken í Danmörku þar sem sagði að 1/5 íbúa Kaupmannahafnar fúnkeraði ekki, með leyfi forseta, „á hverjum degi út af áfengisneyslu“. Þar vorum við ekki að tala um það sem við köllum í daglegu tali ofdrykkjumenn, enda eru þetta 200.000 manns af þessari milljón sem býr í Kaupmannahöfn, sem fúnkera ekki í samfélaginu á hverjum degi út af áfengisneyslu.