149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[19:19]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég skal reyna að vera knappur í stílnum. Mig langaði í seinna andsvari aðeins að ræða þennan lýðheilsuvinkil sem hv. þingmaður kom inn á. Þingmaðurinn talaði um tvær greinar í frumvarpinu þar sem talað er um að auka framlög til lýðheilsusjóðs, ef ég man rétt. Mig langar að spyrja þingmanninn: Væri þá ekki nær að velviljaðir þingmenn kæmu sér saman um að flytja slíkt mál? Það yrði ekki stórkostlega stórt þingmál að til að mynda auka framlög til lýðheilsusjóðs vegna þess að ef það yrði gert myndi væntanlega verð á áfengi hækka lítillega í samræmi við það. Og þar með nást þau markmið sem a.m.k. ég og hv. þingmaður erum sammála um að séu eftirsóknarverð í neyslu áfengis á Íslandi.