149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[19:20]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég lýsi mig algjörlega sammála hv. þingmanni hvað þetta varðar. Satt að segja finnst mér eiginlega þversögn í því að ætla að auka tekjur af áfengissölu með því að dreifingaraðilar verði fleiri. Ég vitna aftur til þarsíðustu framlagningar þessa máls þar sem fram kom hjá Viðskiptaráði Íslands að það ætlaði sko ekki að skila áfengisgjaldi tvisvar í mánuði eins og ÁTVR gerir. Það ætlaði að gera bara eins og með virðisaukaskattinn, að skila gjaldi á tveggja mánaða fresti.

Bara það myndi setja svolitla beyglu í fjárflæði ríkisins þannig að ég segi: Við skulum endilega leggja lýðheilsugjald á áfengi, láta ÁTVR innheimta það, alveg eins og það innheimtir áfengisgjaldið, og skila því tvisvar í mánuði, eins og áfengisgjaldinu. Við værum þá bara í fínum málum með forvarnir og slíkt. Ekki veitir af vegna þess að það hefur þegar orðið mikil aukning á áfengisneyslu í landinu.