149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[19:22]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður nefndi að það væri skortur og vöntun á einhverjum stuðningsmönnum þessa máls í umræðuna. Nú er ég svo sem ekki, ja, satt að segja veit ég ekki hvaða afstöðu ég hef til málsins, ég held að ég sé almennt frekar jákvæður fyrir því. En ástæðan fyrir því að ég hef látið mig vanta í umræðuna hingað til er aðallega sú að nú er umræða búin að vera í gangi í a.m.k. 30 ár. Umræður um þetta byrjuðu um árið 2000, nei, 1996, eitthvað þar um bil, þannig að ég held að á þessum tímapunkti séu allir vinklar búnir að margkoma fram og mér hefur ekki fundist vera mikið gagn af því að eyða tíma þingsins í að koma með mitt sértæka álit á þessu.

Þetta er mál sem kemur aftur og aftur fram vegna þess að fólk vill fá að takast aðeins á um þetta og þetta er auðvitað málefni sem skiptir miklu máli einhvers staðar úti í samfélaginu. En þetta kemur einhvern veginn niður á það ár eftir ár að þetta er tækifæri fyrir hv. þingmenn að sýna hvar þeir standa í pólitík, hvort þeir séu íhaldssamir eða frjálslyndir eða hvað og hvar nákvæmlega þeir vilja vera. Það er bara hið besta mál.

En er ekki hægt að gera það kannski með einhverjum skilvirkari hætti, kannski með því að hleypa málinu bara í atkvæðagreiðslu? Mig grunar það, án þess að ég viti það, að málið yrði fellt ef það færi í atkvæðagreiðslu núna. En það tengist því ekki endilega að málið sé slæmt, heldur bara að við sjáum það svolítið á samsetningu þingsins í ýmsum öðrum málum að þetta er kannski ekki hátt metið hjá hv. þingmönnum.

Ég vildi koma hingað og útskýra aðeins af hverju ég hef látið mig vanta, vegna þess að þetta er satt að segja orðið pínu leiðinlegt, þ.e. þessi umræða. Ég held að við getum nýtt tíma okkar betur.