149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[19:24]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna þátttöku hv. þm. Smára McCarthys í umræðunni. Hann segir að allir vinklar séu komnir fram. Jú, rétt er það. Það hefur líka margkomið fram að meiri hluti þjóðarinnar er á móti þessu máli og sambærilegum málum. Samt kemur það upp hér aftur og aftur eins og uppvakningur. Það er náttúrlega út af því að svo sterkir kraftar búa að baki, það er verslunarauðvaldið sem er hér að baki.

En ég hef haft það fyrir sið í þingmennsku minni eins og ég hef frekast getað að standa með þjóðinni. Ég ætla að standa með þjóðinni í þessu máli líka vegna þess að hún er að meiri hluta til samkvæmt skoðanakönnunum, ítrekuðum, á móti því að áfengi verði selt í sérverslunum eða í stórmörkuðum utan ÁTVR. Ég tek undir það sjónarmið og ég hef útskýrt það bæði af lýðheilsuástæðum og markaðsástæðum.

Síðan get ég líka bætt því við að við erum að vísa vandamálunum sem fylgja aukinni áfengisneyslu, sem mun fylgja samþykki þessa frumvarps, inn í framtíðina. Við erum að leggja það á börnin okkar og barnabörnin, í fyrsta lagi að þau eigi erfiðara um vik að neita sér um áfengi af því að það verður meira framboð af því og í öðru lagi erum við að leggja á þeirra herðar byrðarnar af þeim heilbrigðisvandamálum sem verða til í framtíðinni með samþykkt frumvarpsins. Á þeim 30 árum sem liðin eru frá bjórsamþykktinni höfum við fengið veikindi sem við höfðum ekki áður. Skorpulifur var varla til hérna, brisbólga hefur stóraukist, 20 sortir af krabbameini frá koki niður í endaþarm. Það er þetta sem við erum að glíma við núna og munum glíma enn frekar við ef við samþykkjum frumvarpið.