149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[19:28]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er glaður yfir því að hv. þingmaður nefnir hér til sögunnar 1933 vegna þess að það var ekkert traust á þjóðinni sem vakti fyrir ráðamönnum þess tíma að taka upp áfengissölu á Íslandi aftur, þeir vildu selja saltfisk. Það var bara svo einfalt. Það voru hreinlega markaðslegar ástæður sem ollu því að menn vildu opna fyrir púrtvín til að byrja með til að geta selt saltfisk til Spánar og Portúgals. Þá voru engin lýðheilsusjónarmið eða eitthvert traust á þjóðinni sem olli því, alls ekki.

En jú, jú, auðvitað að treysta þjóðinni, mikil ósköp, en samt sem áður, ég hef sagt það fyrr og segi það enn — það kann vel að vera að ég sé íhaldssamur. Ég er á móti asbestnotkun. Ég vil að menn spenni bílbelti, ég er á því að það eigi að gera. Ég vil að börn séu í barnabílstól. Ég vil hafa vit fyrir fólki, ég viðurkenni það bara strax. Og eftir alla þá reynslu og eftir allt það sem búið er að segja okkur í umsögnum er ekki hægt að samþykkja þetta mál.

Af því að hv. þingmaður minntist á súkkulaði veit ég ekki um neinn sem hefur orðið ofbeldisfullur (Forseti hringir.) af að borða súkkulaði og ég veit ekki um neinn sem hefur keyrt bíl áberandi verr eftir að (Forseti hringir.) hafa borðað súkkulaði.