149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[19:44]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég hafði líka miklar efasemdir um rafsígaretturnar og hef þær enn. Þess vegna var ég ánægð með þá breytingu sem gerð var, sem mikil átök voru um, eins og við munum, um stærð hylkja, og almáttugur minn hvað það nú heitir allt saman sem ég kann ekki að nefna.

Á móti kemur að margur telur að þetta hjálpi, á meðan við sjáum svo líka, því miður, allt of margt ungt fólk nota þetta sem aldrei hefur reykt. Það er akkúrat það sem við eigum eftir að sjá í framtíðinni, hvert lögleiðingin á rafsígarettunum leiðir okkur. Þær voru komnar hingað en engin umgjörð var utan um þær þó að búið væri að flytja mikið magn af þeim til landsins.

Ég tek undir það sem hv. þingmaður segir varðandi byrðarnar inn í framtíðina. Við erum sammála um að það er engin söluvara sem veldur jafn víðtækum skaða og áfengið. Ef við föllum frá því fyrirkomulagi sem við höfum núna og færum áfengissölu yfir til einkaaðila þýðir það bara að það er einn sem hirðir gróðann á meðan annar ber þennan samfélagslega kostnað. Það er bara það sem við stöndum frammi fyrir. Það er ekkert öðruvísi.

Það erum alltaf við skattgreiðendur sem þurfum að takast á við þær neikvæðu afleiðingar sem verða af óhóflegri neyslu áfengis, þær lenda óhjákvæmilega á félagsþjónustu sveitarfélaga, í heilbrigðiskerfinu o.s.frv. ÁTVR skilar okkur hagnaði. Þó að það sé ekki markmið ÁTVR að skila hagnaði er það þó þannig að hagnaðurinn rennur til ríkisins, sem er þá hægt að nýta í þessa þjónustu, fyrir afleiðingarnar sem við þurfum að takast á við.