149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[19:46]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er einmitt þetta sem ég er búinn að vera að velta svolítið fyrir mér. Misnotkun áfengis er ekki einkamál þess sem misnotar áfengi. Hann eða hún varpar stórum skugga yfir allt umhverfi sitt, í allar áttir. Það er líka það sem við þurfum að hafa í huga að mínu mati. Við erum ekki bara að eltast við þá sem eru veikir fyrir áfengi eða vilja meira frjálsræði, heldur erum við líka að hugsa um fjölskylduna sem einingu.

Það er reyndar eitt sem mig langar að spyrja hv. þingmann um vegna þess að í greinargerðinni með frumvarpinu er talað töluvert um bætta vínmenningu, að menn séu bara að sötra rauðvín með góðri steik. Að vísu er mörgum þeirra sama hvort steikin er ættuð einhvers staðar úr umhverfi sem við viljum ekki endilega borða afurðir úr, en menn skola henni niður með góðu rauðvíni.

Samt sem áður er það þannig, eða manni virðist það, að flestir veitingastaðir höfuðstaðarins og ýmissa þéttbýlisstaða eru gjarnan fullir öll virk kvöld, en þó virðist ekki draga úr helgarfylliríinu. Það virðist enn lifa vondu lífi.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún sé kannski sammála mér varðandi þessa meintu vínmenningu og þessa meintu, bættu meðferð áfengis sem búið er að tala mikið um, sérstaklega í kjölfar bjórsins, þó að við vitum að heimilisofbeldi hafi margfaldast, þó að við vitum að það sé enn verið að lemja mann og annan í miðbænum um helgar. Telur þingmaðurinn að mýtan um bætta vínmenningu eigi við rök að styðjast?