149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

um fundarstjórn.

[15:20]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Mér finnst ómaklegt að segja að þetta mál sé unnið í flýti. Ég held ég hafi orðið vitni að fáum málum sem unnin hafa verið af jafn mikilli alúð og natni og þetta mál innan velferðarnefndar undir handleiðslu hv. þm. Halldóra Mogensen. Það lýsir kannski einhverjum samskiptaörðugleikum í sumum þingflokkum að þau boð hafi ekki borist innan úr nefndinni til þeirra sem tjá sig hér, en þegar fulltrúar í nefndinni taka þátt í þessu er það óheiðarlegt.

Við tókum málið til nefndar milli 2. og 3. umr. að beiðni þessara þingmanna, sem þó höfðu 29. apríl samþykkt að málið væri fullrannsakað og tækt til afgreiðslu úr nefndinni. Við tókum það inn milli umræðna og spurðum einfaldlega: Hvað hefur breyst frá því að þið samþykktuð að málið yrði tekið úr nefnd?

Ástæðan fyrir að við tókum ekki gesti í framhaldinu var að það komu engin svör. Vegna þess að málið er jafn vel unnið í dag (Forseti hringir.) og það var 29. apríl þegar fulltrúar Miðflokks og Flokks fólksins og Sjálfstæðisflokks og allra flokka sem samþykktu að taka það út úr velferðarnefnd. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)