149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[18:14]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Síðustu spurningu hv. þingmanns er fljótsvarað. Ég var ekki á þessum fundum og það veit hv. þingmaður vel. Hins vegar er samflokkskona mín, hv. formaður velferðarnefndar, Halldóra Mogensen framsögumaður þessa máls og við höfum átt mikið og gott samráð um það, eins og væri eðlilegt að gera í flestum þingflokkum, hefði ég haldið. En því miður virðist það ekki vera raunin.

Hv. þingmaður krefur mig svara um hversu mörg jaðartilfellin séu. Ég fæ það svona á tilfinninguna að hv. þingmenn vilji ekki hafa neitt rými fyrir þessi jaðartilfelli því að þeim finnist þau of fá. Að það sé ástæðan fyrir því að þeir séu að fiska eftir þessum jaðartilfellum. Ef þau eru svo fá, eigum við þá bara að sleppa því að hafa svigrúm fyrir það fólk? Eigum við þá að sleppa því að hafa svigrúm fyrir þessi jaðartilfelli?

Hv. þingmaður kallar þetta útúrsnúninga. Ég hef heyrt því fleygt að það séu um fjögur, fimm tilfelli á ári þar sem um mjög alvarleg, félagsleg tilvik er að ræða. Eigum við að útiloka þau vegna þess að þau eru ekki nógu mörg? (GIK: Nei.) — Nei, segir hv. þingmaður. Hann vill samt færa vikufjölda niður í 20 vikur eða 18 víkur, það er ekki alveg skýrt. Hugsanlega er hann bara algerlega á móti fóstureyðingum en er ekki tilbúinn til að viðurkenna það.

Að lokum ætla ég að leyfa mér að svara spurningu hv. þingmanns — eða staðhæfingum — sem talar um að það sé bara ekkert vitað með þessar 1.000 fóstureyðingar á ári, þessi 1.000 þungunarrof sem ekki eru af læknisfræðilegum ástæðum. Ég ætla bara að leyfa mér að staðhæfa að það komi hv. þingmanni ekkert við hvers vegna þessar konur völdu að fara í þungunarrof. Ætlar hann að fara og heimsækja þær allar og spyrja: Hvers vegna fórst þú í þungunarrof? Hvers vegna vill hann svona mikið vita það? Af hverju kemur það honum við að konur hafi sótt sér heilbrigðisþjónustu? Það kemur honum ekki við.