149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja.

539. mál
[20:17]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson fór ágætlega yfir nefndarálitið sem ég rita undir en þó með fyrirvara og lýtur hann að svipuðum þáttum og hjá hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni. Við stöndum auðvitað frammi fyrir veröld sem byggir framtíð sína á því að þjóðir vinni saman og nái meiri einingu og ríki almennt byggi í auknum mæli á lýðræði og manneskjulegum stjórnarháttum.

Í þessu máli stöndum við frammi fyrir tveimur möguleikum. Annars vegar þeirri skoðun að við slíkar aðstæður, þegar við erum að gera fríverslunarsamninga eða erum að velta því fyrir okkur við ríki eins og Filippseyjar, eigi að hafna og loka á þau og reyna þannig að þvinga þau til skárri stjórnarhátta eða hins vegar að vinna að því með meiri viðskiptum og samskiptum. Almennt hef ég meiri trú á þeirri leið og tel að býsna sterk rök þurfi til þess að reyna það ekki áður en hitt er gert.

Það stendur í þessum fríverslunarsamningi að ríkin skuldbundi sig til þess að efla lýðræði og réttarreglur og bæta mannréttindi og mannfrelsi og vinna í samræmi við þjóðarétt og samkvæmt sáttmála Sameinuðu þjóðanna og mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Þau árétta að þau ætli að gera það. Ég held að alveg sé ljóst miðað við ástandið þar að þá þarf að fylgja því eftir og þess vegna geri ég þann fyrirvara að ég vil nota tækifærið til að hvetja íslensk stjórnvöld til að nota rödd sína. Það er margkomið í ljós að jafnvel þótt við séum lítil heyrist í okkur og það er hlustað á rödd okkar þegar við látum í okkur heyra. Um það eru mörg dæmi og svo ég taki bara nokkra mánuði aftur í tímann held ég að það hafi vakið býsna mikla athygli þegar Ísland lét heyra í sér varðandi skort á mannréttindum í Sádí-Arabíu.

Ísland hefur ekkert ofboðslega mikið fram að færa í utanríkismálum annað en gildi eins og lýðræði, mannréttindi, jafnrétti og slíka hluti. Það er raunar eina útflutningsvara okkar þegar kemur að svona hlutum, án þess kannski að lána landið undir hergögn annað slagið. Ég vil því ítreka að ég samþykki þetta en ætlast til þess að við látum í okkur heyra þegar okkur finnst skorta á þá hluti sem við berjumst fyrir.