149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja.

539. mál
[20:43]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Við ræðum fullgildingu fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja, eða í rauninni bara milli Íslands og Filippseyja þar sem önnur EFTA-ríki eru búin að fullgilda samninginn af sinni hálfu.

Mig langar að ræða aðeins álit minni hluta utanríkismálanefndar sem mér þykir þingheimur þurfi að gefa góðan gaum að þar sem fólkið sem stendur að þessu minnihlutaáliti verður seint sakað um að vera einangrunarsinnar eða andstæðingar alþjóðasamstarfs, þvert á móti. Við erum annars vegar að tala um Rósu Björk Brynjólfsdóttur, sem þessa dagana gegnir embætti varaforseta Evrópuráðsþingsins, og hins vegar Smára McCarthy, sem er formaður þingmannanefndar EFTA. Við erum að tala um fólk sem hrærist mjög mikið í alþjóðlegu starfi og veit hversu mikilvægt það er að eiga uppbyggileg samskipti á milli landa. Sérstaklega langar mig að undirstrika hversu mikilvægt það er að formaður þingmannanefndar EFTA standi að þessu minnihlutaáliti þar sem fullkomlega réttmæt gagnrýni er sett fram í minnihlutaálitinu á formálsorð fríverslunarsamninga sem EFTA gerir við hin ýmsu ríki.

Ég treysti því í ljósi framgöngu hv. þm. Smára McCarthys hér í sal að hann muni fylgja þessu eftir innan þingmannanefndarinnar og í framhaldinu munum við vonandi sjá einhverjar úrbætur á þeim vettvangi.

Hér hefur verið farið yfir formálsorð fríverslunarsamninga sem EFTA-ríkin gera þessi misserin. Þetta er viðbót við samninga. Þetta er nýmæli og var jákvætt skref á sínum tíma að í formálsorðum er áréttað að samningsaðilar skuldbindi sig til að virða lýðræði, réttarreglur, mannréttindi og mannfrelsi í samræmi við skyldur sínar samkvæmt þjóðarétti. Þetta er samningur sem skrifað var undir áður en Duterte tók við völdum á Filippseyjum.

Þegar hann tók við völdum og í ljós kom að hann stefndi í það að vera rakinn skíthæll og harðstjóri þá hefðu einhverjar viðvörunarbjöllur átt að kvikna hjá samningsaðilum Filippseyja sem hafa þennan góða inngang að samningum sínum. Þá hefðu öll EFTA-ríkin fjögur átt að segja, nei, heyrðu mig nú, hérna ættum við kannski aðeins að staldra við, aðeins að anda í kviðinn og sjá hvort þetta sé ríki sem við viljum lyfta upp með því að gera fríverslunarsamning við. Nei, það var ekki gert á þeim tímapunkti. Hin þrjú EFTA-ríkin eru búin að samþykkja þennan samning fyrir sitt leyti og hér liggur fyrir tillaga meiri hluta utanríkismálanefndar að Ísland geri slíkt hið sama.

Þrátt fyrir það að ekki einasta strax eftir að Duterte tók við völdum heldur nánast dag frá degi hafa stjórnarhættir hans versnað. Hv. þm. Smári McCarthy nefndi að það skipti ekki máli, aðalatriðið væri ekki að ríki væru fullkomin eða stæðu sig alveg 100% heldur alla vega að þau sýndu viðleitni til að bæta sig. Duterte hefur gert hið gagnstæða. Hann hefur sýnt einbeittan vilja til að grafa undan mannréttindum innan Filippseyja og sama tíma láta EFTA-ríkin eins og þessi formálsorð hafi eitthvað að segja. Þau höfðu ekkert að segja þegar samningurinn var að bíða fullgildingar. Hann var samt fullgiltur hjá þremur þeirra. Hvað hefur gerst síðan? Nú er samningurinn búinn að vera í gildi í hinum EFTA-ríkjunum. Er eitthvað búið að gerast á þeim vettvangi til að kveikja á viðvörunarbjöllum vegna versnandi ástands á Filippseyjum? Nei, það er nefnilega ekki.

Það sést ágætlega á því að lesa álit bæði minni hluta og meiri hluta utanríkismálanefndar að EFTA hefur ekkert um mannréttindaástand á Filippseyjum að segja. Hér er vitnað í ýmis alþjóðasamtök. Vitnað er í Amnesty og Human Rights Watch og ýmis önnur samtök, en það er engin mannréttindavakt innan EFTA sem getur sagt okkur hvort ástandið sé að skána eða versna á Filippseyjum. Nei, vegna þess að það er, eins og segir í áliti minni hluta utanríkismálanefndar, holur hljómur í þessum formálsorðum fríverslunarsamninganna.

Hér hefur þetta mál verið sett í samhengi við stöðu Íslands á alþjóðavísu af því að þessi misserin höfum við sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. Þar hafa íslensk stjórnvöld og hæstv. utanríkisráðherra ítrekað bent á að hörð afstaða okkar gegn Filippseyjum og gagnrýni á stjórnvöld þar í landi hafi skipt miklu máli til að tryggja Íslandi þetta sæti þegar Bandaríkin hrökkluðust frá mannréttindaráðinu með skömmum fyrirvara. Það er holur hljómur í því að gagnrýna Filippseyjar með annarri hendinni en rétta fríverslunarsamning með hinni.

Sérstaklega þegar, eins og bent hefur verið á, um brot gegn fjárhagslegum skuldbindingum ríkjanna er að ræða. Um þau brot gilda skýrar reglur og viðurlög. Það er gerðardómur og það eru heilu kaflarnir í þessum samningi um það hvernig eigi að taka á því þegar auðvaldið er snuðað, en þegar brotið er á mannréttindum fólks samkvæmt sama samningi þá tekur ekkert við. Af því að illu heilli endurspeglar þessi samningur þá stöðu alþjóðakerfisins sem við búum við að auðmagnið á sér sterkari málsvara en einstaklingurinn.

Það sem minni hluti utanríkismálanefndar leggur til í áliti sínu, og ég styð, er að þessi samningur verði einfaldlega lagður til hliðar þar til hægt verður að segja með sanni að það sé ekki siðferðilega ámælisvert að gera fríverslunarsamning við Filippseyjar. Og það gerist ekki meðan við erum með harðstjóra þar. Hvers vegna ætti Ísland ekki að gera það? Um þá fríverslunarsamninga gilda ekki sömu reglur og um innleiðingu á Evrópureglum í gegnum EES-samninginn. Þar þurfa öll ríki að taka upp regluverkið til að það sé tekið upp í samninginn. Eins og fram hefur komið eru hin þrjú ríkin með virkan fríverslunarsamning við Filippseyjar á grundvelli þessa plaggs. Ísland þarf ekkert að gera til að þau geti sinnt sínu. Við stöndum ekki í vegi fyrir neinu. Það er búið að halda kynningarfundi á Filippseyjum þar sem talsmenn ríkjanna þriggja ásamt fólki frá fríverslunarskrifstofu EFTA mætti, dekkaði borð og lagði á brauðtertur og kynnti fólk fyrir viðskiptatækifærum í EFTA-ríkjunum. Þetta er allt saman bara í góðum gír. Ísland þarf ekki að stimpla Filippseyjar sem húsum hæf stjórnvöld til þess að félagar okkar í EFTA geti notið ágóðans af þessum fríverslunarsamningi og því mun ég ekki styðja hann.