149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja.

539. mál
[20:54]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þingmanninum andsvarið og sérstaklega að draga fram þá staðreynd að það eru misjafnar skoðanir innan EFTA-ríkjanna varðandi það hvort við eigum yfir höfuð að vera að blanda saman viðskiptum og baráttunni fyrir betri heimi, mannréttindum. Af því að þessar misjöfnu skoðanir eru ekki bara á milli okkar vinaþjóðanna í EFTA heldur eru misjafnar skoðanir á því máli hér í salnum.

Þingmenn eru ekki á einu máli um hvort við eigum að nota samninga af þessu tagi til að koma á framfæri sjónarmiðum okkar varðandi það hvernig stjórnvöld eiga að koma fram við borgara sína. Ég hlakka til að sjá hvað verður um hugmyndir um kafla um sjálfbæra þróun í samningnum framtíðarinnar, af því að þar er enginn einhugur heldur. Ég þekki þingmanninn nógu vel til að vita að hann mun beita sér af miklum krafti innan þingmannanefndar EFTA að þessu leyti.

Ég veit að hann mun gera allt sem hann getur til þess að koma því á framfæri að við meinum hlutina þegar við segjum þá. Þetta snýst bara um það. Þetta snýst um að við séum ekki að eyða bleki í einhver formálsorð um mannréttindi nema við ætlum að gera eitthvað með þau. Eins og þingmaðurinn nefndi réttilega í ræðu sinni: Ef við getum ekki treyst þeim til að fylgja þessu formálsákvæði, af hverju ættum við að treysta Filippseyjum til að fylgja nokkru einasta ákvæði samningsins? Þá er alveg eins hægt að setja hann í tætarann og láta eins og hann sé ekki til.