149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[22:36]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er tvennt sem mig langar að bregðast við í þessu síðara andsvari hv. þingmanns. Í fyrsta lagi voru deildar meiningar um það 2017 hvort breytingartillögur meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar væru viðamiklar eða ekki. Meiri hlutinn vildi meina að þetta væru smotterísbreytingar sem kölluðu ekkert á einhverja frekari rannsókn málsins. Við í minni hlutanum vorum því ósammála, töldum þetta viðamiklar breytingar.

Nú háttar svo til að hv. flutningsmaður er búinn að skera á þennan hnút. Hann sagði í upphafi þessarar umræðu í vetur að þetta mál væri mikið breytt frá síðustu útgáfu. Þar með tel ég varhugavert að flytja rannsókn málsins fyrir tveimur árum yfir til dagsins í dag og líta á það sem fullnægjandi afgreiðslu núna. Það þarf að rannsaka þetta mál frá grunni í þingnefnd.

Hv. þingmaður hefur engin ný rök heyrt í málinu. Það kann vel að vera. Ég bendi þá á móti á að það heyrðust mörg rök fyrir tveimur árum sem voru hunsuð eins og til að mynda lýðheilsurökin, eins og til að mynda umsögn velferðarráðuneytisins.

Þannig að þó að við fáum aftur öll sömu rökin núna og við fengum síðast getum við komist að annarri niðurstöðu ef við hlustum aðeins betur og vöndum okkur aðeins meira en þáverandi meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar gerði.