149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[22:43]
Horfa

Hjálmar Bogi Hafliðason (F):

Frú forseti. Við ræðum áfengisfrumvarpið, sem dúkkar upp með reglulegu millibili. Við lestur þessa frumvarps veltir maður fyrir sér hvort við förum virkilega á betri stað en við erum á í dag með því að leggja niður ÁTVR og afnema einkaleyfi ÁTVR á sölu áfengis. Maður veltir fyrir sér hver það sé sem dragi vagninn í þessu máli þegar það kemur upp með svo reglulegu millibili. Snýst þetta ekki fyrst og fremst um að það er hagur einhverra að leggja niður þetta einkaleyfi, sem er þá væntanlega hagur þeirra sem ætla að fara að selja áfengi og græða á því? Gefum okkur það.

Á þessu eru mjög margir vinklar og ég ætla að leyfa mér að taka landsbyggðarvinkil. Því að ég efast um að aðili sem færi út í smásölu á áfengi myndi opna eins veglega búð og ÁTVR gerði á Kópaskeri. Mér er til efs um það. Og ef hann gerði það myndi hann kannski bjóða upp á eina tegund af Bónus-bjór. Gefum okkur það. Því miður held ég að það væri svolítið staðan.

Hér eru margir búnir að fara yfir lýðheilsuvinkla. Þá veltir maður fyrir sér hvort næsta skref sé að lækka aldurinn úr 20 niður í 18. Er það næsta skref til að græða enn meira? Þar er góður markhópur fyrir áfengi því að — og ég hef ekki heyrt þetta koma fram í umræðu um þetta mál — ég held að staðan sé þannig að það sé jafnvel betra aðgengi að fíkniefnum en áfengi, því miður. Ég held að það staðan úti í samfélaginu hjá ungu fólki. Það er auðveldara, hvort sem það er í Facebook-hópum, einhverjum lokuðum síðum sem eru notaðar til að selja fíkniefni, að verða sér úti um slík efni en áfengið.

Ég ætla aðeins að fá að benda á niðurstöður Ungs fólks 2018. Rannsóknir og greining standa fyrir mjög miklu og flottu starfi við rannsóknir á högum ungs fólks. Í niðurstöðum um 8. bekk árið 2001 höfðu 6% ungmenna drukkið síðastliðna 30 daga. Það er komið niður í 1%. Og í 9. bekk árið 2001 voru 16% unglinga sem höfðu drukkið síðastliðna 30 daga. Það er komið niður í 1%. Árið 1998 höfðu 42% unglinga drukkið áfengi síðastliðna 30 daga samkvæmt þessari rannsókn. Það er núna komið niður í 5%.

Það er augljóst að einhvers staðar erum við að gera rétt og vel og eigum þess vegna ekki að víkja frá þessu. Því að áfengi er ekki eins og hver önnur vara. Þetta er sannarlega vímugjafi. Þá veltir maður fyrir sér: Ég fer í Lyfju eða hvaða aðra lyfjaverslun sem er til þess að kaupa mín lyf — hvers vegna fer ég þá ekki bara í ÁTVR-verslun ríkisins til að kaupa mitt áfengi? Mér finnst ekkert athugavert við það kerfi sem við erum með í dag. Þar fæ ég góða þjónustu og ég ætla að leyfa mér að segja að ég er ekki viss um að ég fengi eins góða þjónustu, búandi utan höfuðborgarsvæðisins, og raun ber vitni.

Þetta hefur nú verið rannsakað og mælt. 75%. plús, mínus, landsmanna eru almennt á móti því að afnema einkaleyfi ÁTVR á sölu áfengis. Eins og hefur verið bent réttilega á hér í andsvari kemur þetta mál hins vegar reglulega upp. Það er bara af hálfu þeirra sem þurfa að draga þann vagn að sýna sig fyrir verslunina. Því miður.

Því enn og aftur: Við erum á þeim góðan stað með sölu á áfengi að hafa látið hana í hendur ÁTVR. Aðrar þjóðir víða í Evrópu keppast við að komast á sama stað og við erum á í dag.

Það þýðir ekkert að hrista hausinn yfir því. (BN: Það er ekkert verið að því.) Jú, jú, það er bara þannig. (Gripið fram í.) Það er bara þannig. Margir vildu sjá sama árangur og Íslendingar hafa náð í að draga úr neyslu áfengis hjá ungu fólki. Sömuleiðis er ég sammála hv. þm. Andrési Inga Jónssyni um að frumvarpið fari til velferðarnefndar til frekari úrvinnslu.