149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[22:48]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það rakst hvað á annars horni í þessum málflutningi. Við höfum náð svo miklum árangri að menn horfa til okkar í því að draga úr neyslu ungs fólks. Trúa menn því að það ráðist af því hvort að það séu ríkisstarfsmenn eða aðrir sem selja áfengi?

Ég vil bara benda hv. þingmanni á það að aðgengi að áfengi hefur aukist mjög mikið undanfarin ár. Samt hefur dregið úr áfengisneyslu ungs fólks. Af hverju ætti það að vera eðlilegt að hv. þingmaður geti gengið inn í lyfjaverslun og keypt sér lyf sem er sannarlega ekki venjuleg vara? Hann getur gert það hjá einhverjum einkaaðilum en getur ekki keypt áfengi þar. Það er eitthvað bogið við þennan málflutning.

Ég vil benda hv. þingmanni á að hér, nánast á hverjum degi byrjar nýr aðili, einkaaðili, að selja áfengi. Hv. þingmaður getur farið í bakarí á Akureyri klukkan hálfátta og fengið hvítvín með snúðnum. Þannig að öll þessi rök, þessi lýðheilsurök um það að lýðheilsa okkar sé betri en annarra vegna þess að ÁTVR selur áfengi, gengur auðvitað ekki upp. Það segir sig sjálft.

Ég er hins vegar alveg sammála því að þjónustan mun örugglega versna á Kópaskeri. Ég er algjörlega sannfærður um það ef ÁTVR hættir. Það mun enginn einkaaðili fara að selja þar, ekki nema bara landa í skúrnum sínum.

Fyrir mér er þetta ekki mikið mál og mér er alveg sama þótt það sé bara óbreytt, í raun og veru. Ég gagnrýni bara þessa röksemdafærslu vegna þess að hún gengur ekki upp. Ég vil fá að kaupa af einkaaðilar áfengi alveg eins og ég get keypt af honum geðlyfin mín.