149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[23:05]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég sagði reyndar fleiri hluti í ræðu minni en að áfengi væri dóp eins og annað dóp. Enda sagði ég heldur ekki að áfengi væri eins og allt hitt dópið. Ég sagði mjög skýrt að allt dóp væri mjög misjafnt. Kannabisefni virka öðruvísi en kókaín, sem virkar öðruvísi en heróín, sem virkar öðruvísi en áfengi, sem virkar öðruvísi en LSD. Þessi efni eru mjög misjöfn og hætturnar af þeim eru misjafnar.

Hv. þingmaður sagði að langvarandi neysla á áfengi gæti valdið fíkn. Það þarf ekkert langvarandi neyslu til þess. Fullt af fólki verður strax mjög háð áfengi bara við fyrsta sopa. Það er mjög algeng saga af þeim sem lent hafa í vandræðum með það. Sömuleiðis sagði hv. þingmaður að einn skammtur af amfetamíni og kókaíni geti drepið manneskju. Eflaust er það mögulegt. En er það ekki mögulegt með áfengi? Ég held að hv. þingmaður hafi heyrt sögur um ecstacy, MDMA, sem stundum er kallað alsæla á íslensku eða helsæla og talað um að hægt sé að drepast af einni E-pillu.

Öll sú umræða getur verið mjög skaðleg vegna þess að ef hún er ekki í samræmi við upplifun neytenda sjálfra þá hætta þeir að taka mark á öllum viðvörunarorðum. Meðan ég man, ef fólk vill fara að tala um einn skammt þá veit ég ekki til þess að einn skammtur eða nokkur skammtur vegna maríjúanareykinga hafi valdið dauðsfalli, hugsanlega krabbameini eftir áratugalangar reykingar. Það má vera og kannski. Fólk greinir á um það, er mér sagt. Í það minnsta fær sér enginn eina jónu og deyr af því. Það fær sér enginn eina jónu og lemur einhvern niðri í bæ þótt vissulega séu raunverulegar hættur við kannabisefni eins og öll vímuefni sem virka yfir höfuð.

Ég vil bara ítreka það. Ég sagði ekki að vímuefni væru eins því að þau eru misjöfn. Meira að segja innan hvers flokks eru misjafnir styrkleikar og mismunandi samsetningar, þar á meðal áfengi. Ég meina, vodka er ekki alveg sama og bjór þótt sama vímuefnið sé virkt í því.

Ég vil bara minna á að fólk getur alveg dáið af einum „skammti“ af áfengi. Það getur alveg stútað einum landapela á einu kvöldi. Getur það ekki leitt af sér dauðsfall? Auðvitað er þetta dóp. Þetta er ekkert minna dóp en hitt.