149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[23:19]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef í sjálfu sér ekkert á móti því að stýra neyslunni með einhverjum hætti eins og er reyndar lagt til í frumvarpinu. Henni er áfram stýrt þótt það séu sérverslanir sem megi selja. Það eru leyfisveitingar og þess háttar og alls konar skilyrði og mér finnst það allt í lagi. Mér finnst það ekki það mikil kvöð að það snerti einstaklingsfrelsi. Það kemur aðeins inn á viðskiptafrelsið en þú veist, svona er bara heimurinn og vissulega Ísland.

Hv. þingmaður nefndi mjög áhugaverð rök sem eru þau að ef einhver er mjög veikur borgar einhver annar reikninginn og það er alveg rétt. Reyndar vildi ég óska þess að ég hefði heila ræðu til þess að ræða þann punkt vegna þess að þarna er eini tengipunkturinn sem ég hef séð á milli þess að vera félagshyggjusinnaður og forræðihyggjusinni. Þetta er eini tengipunkturinn sem ég sé þar. Að þegar við erum farin að tileinka okkur ríkisrekin eða ríkisfjármögnuð heilbrigðiskerfi og þess háttar fari allt í einu einkamál eins að koma öllum við.

Eina leiðin sem ég finn til þess að aðskilja vinstri manninn í mér, sem er sirka helmingurinn eða svo, kannski rétt rúmlega, frá forræðishyggjunni er með því að við ákveðum bara, ég segi alla vega fyrir sjálfan mig: Ég er til í að fjármagna og borga fyrir heilbrigðiskerfið með sköttunum mínum, með peningunum mínum. Borga þá með glöðu geði, er stoltur af því og er til í að hækka þá meira að segja. Ég er nógu vinstri sinnaður til þess.

En ekki með frelsi mínu. Ég vil samt fá að taka „heimskulegar“ ákvarðanir í mínu einkalífi sem koma niður á heilsu minni og ég vil samt líta svo á að það komi engum öðrum við vegna þess að ég borga skattana mína og það er þannig sem ég vil fjármagna þessi miðlægu samneyslukerfi.

Ég skil punktinn mætavel. Ég bara er staðfastlega þeirrar trúar að við eigum ekki að láta hann leiðbeina okkur þegar við ákveðum hvernig við hönnum kerfi eða ákveðum hvaða frelsi fólk eigi að hafa, ýmist til viðskipta eða einkalífs.