149. löggjafarþing — 102. fundur,  13. maí 2019.

friðlýsingar.

821. mál
[16:44]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Albertína Friðbjörg Elíasdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svo viðamikið svar. Ég held að ég hafi sjaldan heyrt jafn mikið af upplýsingum koma fram á jafn stuttum tíma. En þetta er nefnilega svo ótrúlega mikilvægt mál, náttúruminjaskráin, og sömuleiðis rammaáætlunin.

Það voru reyndar nokkrar spurningar sem hæstv. ráðherra kom ekki almennilega inn á, eins og varðandi fjármagnið, og ástæður þess að þetta hefur gengið hægt hjá Umhverfisstofnun. Ég fagna því hins vegar að verið sé að vinna að þessu af fullum krafti og ég er mjög glöð að heyra þennan áhuga hæstv. ráðherra á því að klára þetta, og að það eigi að klára þetta á þessu ári.

Auðvitað þurfum við að búa til rafmagn, sem er gríðarlega mikilvægt. En það er ekki síður mikilvægt að við tökum frá þau svæði sem við vitum og erum sammála um að eigi ekki að virkja. Það var gert árið 2013, eins og hæstv. ráðherra nefndi, þegar 20 virkjunarkostir voru teknir út fyrir sviga. Þess vegna er svo mikilvægt að næsti áfangi rammaáætlunar komi til þingsins svo við getum tekið ákvarðanir um næstu skref. Þó að vissulega sé verið að vinna langtímaorkustefnu mun hún ekki í sjálfu sér fjalla um einstaka virkjunarkosti eða hvað eigi að friða og hvað ekki.

Það er svo mikilvægt að þetta sé unnið samhliða þeirri vinnu þannig að við áttum okkur á og tökum sameiginlega ákvörðun um hvað við viljum eiga og geyma til framtíðar og hvað ekki.