149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[14:34]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Anna Kolbrún Árnadóttir) (M):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir minnihlutaáliti um tillögu til þingsályktunar um heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Að mati minni hlutans er nauðsynlegt að nýta krafta einkaaðila til að framkvæma aðgerðir með hagkvæmum hætti og verðaðhaldi á sama hátt og gert er í útboðum með kostnaðargreiningu á markmiðssetningu.

Einkarekstur í heilbrigðiskerfinu er í raun opinber enda fer hann fram á grundvelli samninga við Sjúkratryggingar Íslands og staða heilbrigðismála er þannig að allt of mikil áhersla er lögð á Landspítala sem eina hátæknispítalann á Íslandi. Spítalinn er allt of þungur í rekstri og mikið ógagnsæi í fjárlögum með tilliti til fjárveitinga til hans. Það er því óæskilegt að Landspítalinn verði fjármagnaður með DRG-greiðslum, enda myndi það skekkja allverulega aðstöðu annarra heilbrigðisstofnana.

Minni hlutinn bendir á að í þingsályktunartillögunni er ekkert fjallað um endurhæfingu, öldrunarþjónustu, utanspítalaþjónustu, lýðheilsu, forvarnir, dvalar- og hjúkrunarheimili og geðheilbrigðismál. Einnig skortir í stefnuna umfjöllun um nýsköpun, framþróun, tækniframfarir og mat á gæðum og árangri. Þá kom við umfjöllun nefndarinnar fram það sjónarmið að skortur væri á umfjöllun um hlutverk Sjúkrahússins á Akureyri sem háskólasjúkrahúss. Sjúkrahúsið á Akureyri hefur einmitt unnið metnaðarfulla stefnu um skipulag og eflingu vísindastarfs og mun að öllum líkindum hafa burði til að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til háskólasjúkrahúsa.

Minni hlutinn getur ekki fallist á stefnu þar sem gert er ráð fyrir að Landspítalinn verði eina háskólasjúkrahús landsins. Að auki tekur minni hlutinn undir það sem fram kemur í umsögn Landssambands eldri borgara, að bregðast verði við gífurlegri fjölgun eldri borgara sem fyrirséð er að verði næstu árin. Samræma þarf heimaþjónustu og heimahjúkrun. Er eðlilegt að stjórn þeirra mála sé undir einni yfirstjórn en ekki á vegum sveitarfélaga annars vegar og ríkisins hins vegar. Marka þarf sjálfstæða stefnu um hvernig byggja eigi upp dvalar- og hjúkrunarheimili til að mæta þjónustuþörf á næstu árum.

Þá þarf að efla hlutverk virkra notenda og hagsmunasamtaka sjúklinga í heilbrigðiskerfinu. Þar má nefna Krabbameinsfélag Íslands, SÁÁ, Hrafnistu, NLFÍ, Virk, Hugarafl og fleiri mætti telja. Tryggja þarf virkara samráð við þau félög og fylgja eftir því samráði með raunverulegum aðgerðum.

Minni hlutinn leggur til að skýra skuli nánar ábyrgð heilbrigðisstarfsmanna og skýrt verði tekið fram að stjórnendur skuli búa yfir staðgóðri þekkingu og reynslu á sviði heilbrigðismála. Mikilvægt er að hlutverk og ábyrgðarsvið sjúkrahúsanna séu vel skilgreind svo traustur grundvöllur skapist undir samhæfingu þjónustu.

Er lögð fram breytingartillaga þess efnis að skýrar verði kveðið á um að þær kröfur sem gerðar verða til stjórnenda heilbrigðisstofnana.

Minni hlutinn tekur undir það sem fram kemur í umsögn frá Félagi íslenskra heimilislækna um að ábyrgðarsvið heilbrigðisstofnanir landsins gagnvart landsmönnum verði vel skilgreint og með því tryggt að ljóst sé hvar, hvenær og hvaða þjónustu eigi að veita. Minni hlutinn leggur til að þessi atriði verði bætt við í 10. tölulið 1. kafla stefnunnar.

Minni hlutinn leggur ríka áherslu á að allir landsmenn eigi rétt á sínum heimilislækni. Til að tryggja að heilsugæslan geti starfað í landinu öllu þarf að fjölga heimilislæknum til muna og einnig þarf að fjölga öðru starfsfólki heilsugæslunnar. Ef heilsugæslan á sannarlega að vera fyrsti viðkomustaður fólks í heilbrigðiskerfinu þarf að taka á mönnunarvanda hennar og bregðast við aukinni eftirspurn eftir læknum með breiðan þekkingargrunn, t.d. í þjónustu við aldraða og fatlaða og til að styrkja ýmis verkefni félagsmálaþjónustunnar.

Fjarheilbrigðisþjónusta getur ekki leyst af hina mannlegu nánd sem nauðsynlega þarf að vera fyrir hendi. Menntun heimilislækna nýtist á mörgum sviðum þjóðfélagsins. Svo heilbrigðiskerfið geti staðist samanburð við önnur ríki þurfa að heimilislæknar að vera um þriðjungur allra lækna og er lögð til breytingartillaga um að það verði eitt af stefnuviðmiðum nýrrar heilbrigðisstefnu. Er því lögð til sú viðbót að fram komi í stefnunni að grunnmönnun heilsugæslunnar um allt land verði tryggð.

Minni hlutinn leggur til að byggingarframkvæmdir við Landspítala við Hringbraut verði endurskoðaðar og byggingarframkvæmdum við Sjúkrahúsið á Akureyri verði lokið með góðri aðstöðu til að veita hátækniþjónustu. Einnig verði staða umdæmissjúkrahúsanna styrkt með aukinni áherslu á sérfræðiþjónustu.

Þá eru lagðar til orðalagsbreytingar til að tryggja að Sjúkrahúsið á Akureyri geti náð fram því markmiði sínu að verða háskólasjúkrahús.

Sjúklingar í forgrunni og starfsfólk til framfara. Minni hlutinn leggur til að heiti 3. kafla verði breytt til að leggja áherslu á að sjúklingar heilbrigðisstofnana verði í forgrunni í heilbrigðisþjónustu. Einnig skal hafa í huga að ekki er hægt að hugsa stigskipta heilbrigðisþjónustu þannig að sjúklingar fari frá einu stigi til annars, heldur verður að líta til þess að oft þurfa sjúklingar á öllum stigum heilbrigðisþjónustunnar að halda samtímis.

Tryggja þarf skýra stefnu varðandi launasetningu starfa innan heilbrigðiskerfisins alls þannig að greidd verði sambærileg laun fyrir sambærileg störf þar sem horft er til menntunar, ábyrgðar og frammistöðu. Aðeins þannig verður raunverulega lögð ríkari áhersla á laun og önnur starfskjör heilbrigðisstarfsmanna

Skilvirk þjónustukaup. Minni hlutinn leggur til nokkrar breytingar á 5. kafla þingsályktunartillögunnar. Lagt er til að í 2. tölulið komi fram að kaup á heilbrigðisþjónustu miðist við þarfir íbúanna á hverju landsvæði fyrir sig. Þá er lagt til að forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu skuli miðast við hvort tveggja, læknisfræðilega þörf fyrir heilbrigðisþjónustu og félagslega þörf og að aukið tillit verði tekið til þeirra staðreyndar að heilsugæslan á landsbyggðinni er ekki einkarekin. Fjármagna þarf heilsugæsluna með tilliti til þess og tryggja að fjármögnunarkerfið byggist á opinberum gæðastöðlum.

Hugsað til framtíðar. Minni hlutinn leggur til breytingu á 4. tölulið, 7. kafla til áréttingar á því að hlutverk heilbrigðisvísindasjóðs verði að veita styrki til heilbrigðisvísinda á öllum stigum heilbrigðisþjónustu. Þannig er mörkuð sú afstaða heilbrigðisvísindasjóður eigi að gagnast heilbrigðisþjónustunni á öllum þeim stigum sem hún er veitt og aðkomu heilsugæslunnar og umdæmissjúkrahúsanna að vísindarannsóknum jafnframt styrkt.

Að framangreindu virtu leggur minni hlutinn til að málið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.