149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[16:14]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get alla vega sagt að ef það hefði getað gengið upp að nefna einstakar aðgerðir í þessu áliti hefði ég tekið því fagnandi, eins og með þyrluna, ég tel að það yrði eitt mesta framfaraskrefið í heilbrigðiskerfinu. En það er bara svo margt sem við getum gert betur í heilbrigðiskerfinu, margar framkvæmdir, að það er eiginlega ekki réttlætanlegt að fara að nefna eina. Þess vegna fórum við þá leið að hafa sérþingsályktunartillögu um málefni þyrlunnar og utanspítalaþjónustu í velferðarnefndinni. Ég þakka Alþingi fyrir að klára það mál hratt og örugglega og hef mikla trú á því.

Það er rétt að við hefðum hugsanlega getað talað um íbúaþróun, bæði hvað varðar veikar byggðir og byggðir í vexti, að það þyrfti að tryggja að heilbrigðiskerfið væri fljótt að bregðast við í slíkum tilfellum. Það má alveg velta því upp hvernig við setjum það í stefnu að við séum með heilbrigðiskerfi sem bregst hratt við breyttum aðstæðum í hvora áttina sem það er. Ég held að það sé algerlega nauðsynlegt. Nefndin bregst samt að hluta til við því sem hv. þingmaður kemur inn á með því að koma eftirfarandi að í álitinu:

„Nauðsynlegt er að tryggja að heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni og sérfræðingar sem þar starfa hafi burði til að veita sem fjölbreyttasta annars stigs þjónustu svo íbúar á landsbyggðinni þurfi ekki alltaf að fara langar vegalengdir til að sækja sér slíka þjónustu. Þá þarf að huga að því að Landspítali er ekki í öllum tilfellum sá staður þar sem best er að þjónustan þróist.“

Við erum að reyna að fara inn á það að það þarf að gera allt til þess að landsbyggðarsjúkrahúsin styrkist sem mest eins og á Suðurnesjum. Þar á að vera hægt að veita mikla þjónustu sem gerir þann spítala stærri og sterkari til að bregðast betur við sveiflum á svæðinu.