149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:51]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst varðandi hvíta hestinn þá hef ég kannað þetta, en dýrahald mun vera ólöglegt eða óheimilt í Alþingishúsinu. En hugsanlega getur hann mætt mér einhvern tímann hérna úti á Austurvelli.

Varðandi spurninguna um forsætisráðherratíð mína, sem virðist vera byggð á einni af hinum fráleitu samsæriskenningum, sem ég held nú reyndar í þessu tilviki að Björn Bjarnason hafi sett af stað, er það auðvitað lýsandi að hv. þingmaður og aðrir sem tefla fram slíkri rökleysu skuli ekki hafa sterkari rök fyrir máli sínu. Þetta mál hefur aldrei verið á mínu borði. Þetta mál kom meira að segja fyrst inn í sameiginlegu EES-nefndina 2017. Og þá hefði að sjálfsögðu verið rétt að grípa inn.

En þótt það hafi ekki verið gert þá og þótt það hafi ekki verið gert 2013 eða 2003 eða 1999 geta það samt ekki talist rök fyrir því að gera þessi stórkostlegu mistök nú. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)