149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:12]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir framsöguna. Mikið er talað um lögfræðileg álit sem við höfum fengið og að þeim beri saman að flestu leyti en hugsanlega ekki öllu. Það er hins vegar lítið talað um á hvaða afmörkuðu sviðum þessi álit eru gefin. Það gengur það langt, álitaefnin eru það afmörkuð sem liggja undir í greinargerðunum, að þegar Davíð Þór Björgvinsson kom fyrir utanríkismálanefnd og var spurður eitthvað út fyrir þann ramma sem álitsgerð hans kvað á um sagðist hann ekki sitja fyrir svörum um þau mál. Hann hefði einungis verið beðinn um að svara ákveðnum, tilteknum álitaefnum og það var það sem hann gerði. Skúli Magnússon gefur okkur hins vegar meiri innsýn í það hvað gerist þegar og ef við værum komin með tenginguna, þegar við værum búin að virkja 7.–9. gr., og það er ekki alveg það sama.

Það sem mig langar til að spyrja hv. þingmann er, ef við veltum því fyrir okkur: Hvað höfum við með það að gera í raun og veru á innri markaði Evrópu að ræða raforkumál í einangruðu mengi á Íslandi úti í Brussel? Um þetta snýst málið í rauninni. Væri ekki hreinlegra betra, þegar við köllum eftir ráðgjöf, lögfræðisnillingunum okkar, að við myndum reyna að fá sem víðast álit, ekki bara um einhvern stjórnskipulegan fyrirvara sem einn þeirra, Davíð Þór Björgvinsson, sagði að væri í raun bara til heimabrúks, hefði ekkert með málið að gera? Svo er pantað álit, pantaður fulltrúi eða fyrrverandi dómari EFTA-dómstólsins, Carl Baudenbacher, og maður er eiginlega ekki enn búinn að átta sig á hvers vegna kom. Mér finnst þetta snúa að því — ég kem með það á eftir.