149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:27]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni, ég held að þetta sé alveg rétt. Ef við gefum okkur að einhvern tímann á komandi árum komi upp raunhæfar hugmyndir um lagningu sæstrengs til Íslands er ótvírætt, eftir frágang málsins núna og þann lagalega fyrirvara sem bæði felst í innleiðingarreglugerðinni og í þeim yfirlýsingum sem gefnar hafa verið, að fram þarf að fara endurskoðun á lagagrundvelli þeirra ákvæða sem á reynir í þessu tilviki. Það þarf að fara fram það stjórnskipulega mat sem hv. þingmaður vísar hér til. Stjórnskipulega matið hefur verið gert miðað við þær forsendur sem liggja nú fyrir og greinargerðirnar sem (Forseti hringir.) fylgja málinu veita ákveðin svör í því sambandi. En við erum í raun og veru að lofa því að gera það aftur, fara aftur, taka aðra umferð í því sambandi.