149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:24]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er ágætissamlíking hjá hv. þingmanni. Bretar fóru nefnilega af stað í vegferð í Brexit sem þeir vissu ekki hvar myndi enda og var í upphafi í raun fyrst og fremst til innanbúðarbrúks í breska íhaldsflokknum. Aldrei var gert ráð fyrir því að Bretar myndu í raun samþykkja að ganga úr Evrópusambandinu. Það er ein mesta sneypuför sem breska þjóðin hefur lagt upp í og er ekki enn ljóst hvar endar. En það er alveg ljóst út frá veikari stöðu pundsins og flótta fyrirtækja frá Bretlandi að hún hefur skaðað efnahag landsins verulega og sér engan veginn fyrir endann á þeirri þróun. Það væri heiðarlegra af andstæðingum þessa máls að segja það berum orðum ef það er í raun svo að menn eru orðnir þreyttir á samstarfinu um Evrópska efnahagssvæðið og vilja út úr því. En þá skulum við líka átta okkur á því hvað það þýðir fyrir efnahag og lífskjör þjóðarinnar. (Gripið fram í: Nákvæmlega.)