149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:25]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrir ræðuna. Ég hjó eftir því að hann talaði um að þetta væri orðið þreytandi málþóf. Ég held að hér sé ekkert málþóf. Ég veit ekki betur en að enn séu sennilega nálægt 20 þingmenn, þvert á flokka, sem hafa sett sig á mælendaskrá og margir hafa ekki tekið til máls áður. Ég veit ekki betur en að við séum bara að ræða þetta mál.

Varðandi þennan neyðarhemil og sneypuförina eru raunverulega tvær leiðir sem við erum að ræða hérna og hvora væri eðlilegra að fara. Er eitthvað minni sneypuför að setja fyrirvara eða að fá yfirlýsingu frá kommissörum í Brussel eða í Evrópu um að þetta skuli ekki gilda, sem er nákvæmlega það sama og við myndum gera ef við legðum það fyrir sameiginlegu EES-nefndina? Við erum hreinlega bara að fá úrskurð um það að svona viljum við haga málum, þ.e. um þessi grunnvirki yfir landamæri. Við erum að reyna að velja leið til þess sem við getum verið sammála um að haldi.

Mig langar til að spyrja (Forseti hringir.) hv. þingmann hvort hann þekki til þess að fyrirvarar hafi verið gerðir við slíka innleiðingu og hvort þeir hafi haldið.