149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:28]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég skil það þá sem svo að þingmaður þekki ekki til dæma um að gerðir hafi verið fyrirvarar og hvort þeir hafi haldið eður ei. Þessi sameiginlega yfirlýsing bindur pólitískt þá sem hana gefa en ekki þá aðila sem síðar starfa undir samningnum eða eiga aðkomu að honum, þ.e. lögaðila eða einstaklinga. Yfirlýsingin sem hefur verið gefin er pólitísk og verður ekki ígildi lagalegs fyrirvara.

Þetta lagafrumvarp sem þingmaðurinn nefnir er vissulega hér á borðum en það hefur ekki verið samþykkt og ef við samþykkjum þessa innleiðingu taka þessar gerðir gildi. Ég hef trú á því að tímaröðin sé röng.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála því að tímaröðin mætti vera önnur á hlutum til að hlutirnir haldi.