149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:56]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir allar þessa staðreyndavillur. Ég hef aldrei sagt að þriðji orkupakkinn tengdi okkur við eitt eða neitt, aldrei nokkurn tímann, hvorki í ræðu né riti. Ég hef aldrei sagt að við værum að missa stjórn á einu eða neinu.

Ég hef heldur aldrei gert lítið úr fræðimönnum eins og hv. þingmaður gefur í skyn. Ég sagði að einungis hefði verið óskað eftir áliti hjá þeim á afmörkuðu sviði. Það er það sem ég hef sagt.

Ég hef verið að tala um það í minni ræðu hvernig við eigum að líta heildstætt á það að við erum hér að ganga fram í að innleiða orkupakka eftir orkupakka og við vitum öll hvert meginmarkmiðið er með innleiðingu þessara orkupakka. Við vitum vel hvernig vandinn er á raforkumarkaði í Evrópu og við vitum vel að það er þörf á því að tengjast við okkur á einhverjum tímapunkti. Það er sú framtíðarsýn sem ég sé þegar við erum búin að negla inn alla þá orkupakka sem fram undan eru.