149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:58]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður ræðir af innblæstri og innlifun um þetta mál, gott og vel. Ég punktaði hjá mér úr ræðu hennar þar sem hún ýjaði að því að erlend afskipti af innlendri orkuframleiðslu fylgdu innleiðingu þessa pakka, sem er ekki rétt. Ég vil bara koma því á framfæri í þessari umræðu í kjölfar síðasta andsvars. Hv. þingmaður spurði: Af hverju fórum við ekki í fyrirvarana fyrr?

Eftir yfirferð mína yfir þennan orkupakka og þá stjórnskipulegu fyrirvara sem eru gerðir eru þeir einmitt gerðir gagnvart 7., 8. og 9. gr. í setningu sameiginlegu stofnunarinnar og varða eingöngu grunnvirki yfir landamæri. Það er eina valdheimildin sem sú stofnun hefur til að kveða upp úrskurð um, ekki innan neins lands, bara á milli landa. Eina framsalið á valdi væri að gefa þessari stofnun úrskurðarvald á tengivirki á milli landa. Það er að vissu leyti eðlilegt af því að það eru fleiri en eitt land sem eru að deila. Þau lönd fá meira að segja mjög hæfilegan tíma, sex mánuði, og geta framlengt það allt upp í 12 mánuði, til að leysa málin áður en þau þurfa að leita til samvinnustofnunarinnar. Að sjálfsögðu er þetta samvinnustofnun af því að hún varðar tengivirki sem fleiri en eitt land koma að. Það er allt valdaframsalið. Kannski er það einmitt þess vegna sem við fórum ekki í að aflétta þessum fyrirvörum fyrr af því að þeir varða ekki innanlandsmál.