149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:42]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það var nokkuð athyglisvert, snerist eiginlega um það að hægt væri að lækka orkureikninginn með því að skipta um orkusala. Ég persónulega hef reynt að gera það. Ég kyndi mitt heimili með rafmagni og ég hafði ekki neina lækkun upp úr því. Það fer því tvennum sögum af þessu.

Ég held að þetta sé einmitt dálítið kjarni þessa máls, þessi óvissa. Það er ekki hægt að svara því hér hvað rafmagnið kemur til með að hækka hjá notendum. Ég get ekki séð að það standi nokkurs staðar í þessum umsögnum að þetta verði 100 kr. á heimili. Ef það er rétt er bara gott að fá það fram. Það kemur ekki fram. Það segir bara að þetta sé umtalsverð hækkun og hún muni leiða til þess að verðið hækki hjá notendum, bæði heimilum og fyrirtækjum. Það verður (Forseti hringir.) því miður að segjast eins og er að það er svo mikil óvissa í þessu. Mörgu er ósvarað. Þetta er einn kjarni málsins, hækkun á rafmagni til heimila og fyrirtækja í landinu.