149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:46]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög metnaðarfullt markmið hjá þeim en mætti að vera enn þá metnaðarfyllra. Við erum náttúrlega búin að ná því markmiði þannig að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því að við þurfum að leggja út í eitthvað til að ná því.

En varðandi af hverju væri gott að taka þetta upp er ýmislegt annað sem ég fór yfir, t.d. neytendaverndin sem er í þessum orkupakka. Það er aðskilnaðurinn á milli dreifingar og framleiðslu sem býður upp á ákveðna einokun, eins og gerist t.d. á fjarskiptamarkaði með Símann og Mílu, sá sem ætlar að kaupa Sjónvarp Símans verður að versla við Mílu, getur ekki verslað við einhvern annan. Það er þannig einokun sem er verið að reyna að brjóta upp og er til staðar á mörgum stöðum í Evrópu. Hún er í raun enn þá til staðar á Íslandi líka þannig að huga þarf aðeins að því. Það er sjálfstæða eftirlitið sem einmitt fylgist með því að ekki séu lagðar óeðlilegar hindranir.

Það besta sem ég sé í þessu er orkuöryggið og alþjónustan, það er besta viðbótin að mínu mati. Þar er hverju landi fyrir sig gert að setja sér landsstefnu um hvernig eigi að tryggja orkuöryggi um allt landið. Það yrði þá ekki gert með því að vonast eftir orku einhvers staðar annars staðar frá heldur með einhverjum samningi: Viljum við hjálpast að við að tryggja orkuöryggi hérna á milli okkar á þessum svæðum og þá með tengingu þar á milli?

Við þurfum það ekki, enda væri það að fara í 800 milljarða kr. fjárfestingu, ekki til að búa til orku heldur til þess að geta flutt orku bara galið, gjörsamlega galið. Enda segja allir aðilar sem koma að hugmyndinni um sæstreng er: Já, við viljum þetta endilega svo lengi sem einhver annar byggir hann, því að við ætlum ekki að leggja 800 milljarða í þetta. En þegar sæstrengurinn er kominn væri æðislegt að geta flutt út orku í gegnum hann. Það hefði verið æðislegt t.d. þegar fyrsta álverið kom hérna ef sæstrengur hefði verið til þá, þá hefðum við fengið miklu betra verð fyrir orkuna í staðinn fyrir (Forseti hringir.) að selja hana til mengandi stóriðju. En við höfðum ekki það val þá. Við höfum annað val núna, sem betur fer. Þetta er mjög jákvætt.