149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:51]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Íslensk stjórnvöld hafa nú haft hinn svokallaða þriðja orkupakka til umfjöllunar í níu ár eða svo, á sínum borðum. Nefndir þingsins, utanríkismálanefnd, atvinnuveganefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, hafa fjallað um málið og allar hafa þessar nefndir komist að þeirri niðurstöðu að það stæði ekkert í vegi fyrir því að samþykkja þriðja orkupakkann, aflétta eðlilegum stjórnskipulegum fyrirvörum.

Í tíð ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar snemma árs 2015 var í rauninni lagt fram stjórnarfrumvarp um breytingar á raforkulögum. Þar var tekið fyrsta skrefið í að innleiða hluta þriðja orkupakkans og það áður en búið var að komast að niðurstöðu um innleiðingu hans í sameiginlegu EES-nefndinni. Sem sagt 22. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins frá 2009 nr. 72, um sameiginlegar reglur fyrir innri markað raforku, var innleidd hér á landi tveimur árum áður en sameiginlega EES-nefndin náði saman um innleiðingu.

Líkt og bent var á þegar frumvarpið var lagt fram er markmið þessarar tilskipunar að bæta og samþætta samkeppnishæfa raforkumarkaði innan bandalagsins. Lagabreytingin sem gerð var, var við raforkulögin. Þá bættust við ítarleg ákvæði um kerfisáætlun flutningsfyrirtækja. Mælt er fyrir um undirbúning kerfisáætlunar, efnislegt innihald, stöðu í stjórnkerfinu, m.a. gagnvart skipulagsvaldi sveitarfélaga, framkvæmd og eftirfylgni með henni. Er sérstaklega vikið að hlutverki Orkustofnunar við að samþykkja og hafa eftirlit með framkvæmd kerfisáætlunar. Eins og áður segir hafa nefndir þingsins fjallað um þetta mál með ítarlegum hætti.

Utanríkismálanefnd lauk umfjöllun sinni 20. september 2016 og með þeirri umfjöllun var sent álit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar frá nóvember 2014 og atvinnuveganefndar Alþingis frá október 2014. Í áliti utanríkismálanefndar kemur fram að sú aðlögun sem samið hefur verið um byggir á tveggja stoða kerfi EES-samningsins og er sambærileg því sem samið er um vegna gerða um evrópskt fjármálaeftirlitskerfi. Öll ríki EFTA innan EES tóku síðan ákvörðun í maí 2017, með stjórnskipulegum fyrirvara, um að innleiða skyldi orkutilskipun þrjú. Noregur og Liechtenstein hafa þegar aflétt fyrirvörunum.

Í samskiptum við aðrar þjóðir, líkt og í samskiptum okkar á milli sem einstaklinga, skiptir svo miklu máli að við gætum samkvæmni, að við vinnum að ákveðnu verkefni þegar við tökum þátt í að móta það, sérstaklega þegar við óskum eftir því að tekið sé tillit til sérstöðu okkar, eða viðkomandi einstaklings, við setningu á einhverjum leikreglum sem menn ætla að koma sér saman um. Að það sé í allri þeirri vinnu, ekki síst heimavinnunni sjálfri, ekki gefið til kynna annað en að fullur og eindreginn vilji sé til að eiga samvinnu við mótaðilann á grunni þeirra leikreglna sem menn vinna sameiginlega að mótun á.

Allar ríkisstjórnir frá 2010, og ekki síður Alþingi, hafa hagað málum sínum með þeim hætti að samverkaþjóðir okkar innan EES, þá fyrst og fremst innan EFTA, hafa staðið í þeirri góðu trú að Íslendingar myndu innleiða þriðju orkutilskipunina. Að Alþingi gengi til verks við að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara, að íslensk stjórnvöld myndu ekki grípa í neyðarhemilinn, ef svo má að orði komast.

Í þessu sambandi er nauðsynlegt að hafa í huga að það er óumdeilt að Íslendingar og íslensk stjórnvöld, Alþingi, hafa fullan og óskoraðan rétt til að hafna því að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara gagnvart innleiðingu þriðja orkupakkans sem og öðrum tilskipunum sem sameiginlega EES-nefndin, þar sem við eigum sæti, hefur samþykkt að innleiða eftir umfjöllun þjóðþinga, a.m.k. Alþingis; nefnda Alþingis og hér í þingsal, sem eftir þá umfjöllun hafa gefið grænt ljós á að innleiða viðkomandi tilskipun.

Neyðarhemillinn er fyrir hendi. Við getum nýtt hann, við gætum nýtt hana í þessu tilfelli ef við teljum að hagsmunum okkar sé betur borgið. En það er hreinn barnaskapur að halda að eftir allt sem á undan er gengið, þar sem öll ríki EES vinna að samræmdum reglum, að það hafi ekki áhrif á samskiptin innan EES. Það er ekki vegna illvilja viðkomandi þjóða í okkar garð heldur fyrst og fremst vegna þess að þegar horft er á söguna, þegar horft er á hvert einasta skref sem íslensk stjórnvöld hafa tekið í málinu, ríkisstjórnir eftir ríkisstjórnir, þingnefndir eftir þingnefndir, hefur aldrei annað verið gefið til kynna en að það væri eindreginn vilji, eftir að við höfum fengið samþykktar aðlaganir og undanþágur, til að innleiða þriðja orkupakkanum.

Með það í huga hljótum við auðvitað að missa ákveðinn trúverðugleika. Við missum ákveðið traust, alveg eins og þegar við eigum samskipti við hvort annað eða við vini og félaga og við reynum að koma okkur að niðurstöðu í einhverju máli og við göngum frá fundi í þeirri trú, í þeirri fullvissu að handabandið, það sem við handsöluðum, skuli standa. Ef við stöndum síðan ekki við það þá hljótum við auðvitað að missa ákveðinn trúverðugleika í huga þess sem í hönd okkar tók.

Ef við lítum yfir hvað við höfum gert þá tókum við ákvörðun, eða réttara sagt ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar tók ákvörðun um það í janúar 2015 að óska eftir því samkvæmt beiðni Landsnets og Landsvirkjunar að hugsanlegur sæstrengur milli Íslands og Evrópu eða þá Skotlands yrði settur á sérstakan lista Evrópusambandsins, PCI. Það var ekki Evrópusambandið sem hafði frumkvæði að því. Það var ekki sameiginlegi EES-vettvangurinn sem hafði frumkvæði að því. Nei, það voru Íslendingar. Það voru Íslendingar sem óskuðu eftir því að sæstrengur frá Íslandi yrði á lista Evrópusambandsins yfir hugsanleg innviðamannvirki. Það var gert undir því fororði að í þeirri ósk fælist engin skuldbinding frá okkar hálfu. Svo er látið í veðri vaka, bæði í nefndaráliti minni hluta utanríkismálanefndar og síðan í einstökum ræðum hér, að það að sæstrengur frá Íslandi sé á lista Evrópusambandsins sé eitthvert dæmi um að Evrópusambandið sé að seilast eftir ódýrri og hreinni og grænni raforku. Það er þvert á móti.

Þetta er að frumkvæði Íslendinga. Núna liggur fyrir ákvörðun og ósk um að við verðum ekki lengur á þessum umrædda lista. Eins og ég sagði áðan hafa allar nefndir þingsins sem að málinu hafa komið hafa mælt með samþykkt orkupakkans á árunum 2014 og 2016. Alþingi var sem sagt sammála því mati ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar að það færi vel á því að hefja innleiðingu þriðja orkupakkans áður en endanleg ákvörðun um innleiðingu hans lá fyrir á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar.

Allt þetta breytir þó engu um að Alþingi hefur og mun alltaf hafa síðasta orðið þegar kemur að innleiðingu tilskipana af þessu tagi.

Það er Alþingis að ákveða hvort aflétta skuli stjórnskipulegum fyrirvara. Þetta er neyðarhemil. Við hljótum að vera sammála um það þó að við getum deilt um ýmislegt. Það verða þó að vera ríkir og miklir hagsmunir í húfi fyrir íslenskt samfélag til að réttlæta það að við nýtum þessa bremsu, að við stígum á neyðarbremsuna. Og er um slíka hagsmuni að ræða þegar kemur að þriðja orkupakkanum? Við erum ekki með neinum hætti að afsala okkur yfirráðum yfir orkuauðlindum. Við erum ekki að undirgangast neinar skyldur um það hvernig, hverjir og hvenær skuli nýta orkuauðlindina. Við munum hér eftir sem hingað til stjórna og taka ákvörðun sjálf, óháð öllu og öllum, á okkar eigin forsendum og út frá okkar hagsmunum. Hagsmunum þjóðarinnar með hvaða hætti við nýtum auðlindina.

Við erum ekki að undirgangast skyldur eða gefa loforð um lagningu sæstrengs. Hvort og þá hvenær sæstrengur verður lagður er ákvörðun sem við tökum sjálf á okkar forsendum og verður m.a., nái þau mál sem ríkisstjórnin hefur lagt hér fyrir, háð samþykki meiri hluta Alþingis. Við erum ekki að skuldbinda okkur til að breyta eignarhaldi á helstu og mikilvægustu orkufyrirtækjum landsins, þvert á móti. Við erum ekki að færa umráðarétt eða eignarrétt á orkuauðlindunum, orkufyrirtækjunum eða neinu öðru með þriðja orkupakkanum eða nokkrum öðrum tilskipunum sem innleiddar hafa verið eða munu verða innleiddar í framtíðinni. Það er innbyggt og óaðskiljanlegur hluti af EES-samningnum að skipulag eignarréttarins og þar með nýting hans er og verður á forræði hvers aðildarríkis. Það er óaðskiljanlegur hluti. 125. gr. EES-samningsins. Hún getur ekki verið skýrari.

Við Íslendingar ráðum sem sagt nýtingu auðlinda okkar og öllu skipulagi vegna þess hvernig hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hafa búið um málið með lagalegum fyrirvara um lagningu sæstrengs. Hefur verið komið til móts við þá sem haft hafa áhyggjur af því, og ég er einn þeirra, að hér kunni að vera of langt gengið, jafnvel gegn stjórnarskrá. Í því sambandi er þó vert að vitna í bréf Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts frá 10. apríl sl., sem þeir töldu rétt að rita í kjölfar umræðna sem áttu sér stað í þingsal um orkutilskipunina og í fjölmiðlum um þá þingsályktunartillögu sem við ræðum hér.

Með leyfi forseta segja þeir orðrétt — og það er skýrt:

„Enginn lögfræðilegur vafi er á því að sú leið sem við lögðum til og lögð er til grundvallar í þingsályktunartillögu utanríkisráðherra er í samræmi við stjórnarskrá. Að okkar mati skiptir sú staðreynd mestu.“

Herra forseti, skýrara getur það vart orðið. Sú stund kann hins vegar að renna upp að ég telji nauðsynlegt að grípa í neyðarhemilinn af einhverjum ástæðum.

Það er þá líklega vegna þess að ríkisstjórn, þingnefndir, íslensk stjórnvöld í heild sinni, hafi brugðist í öllu ferlinu, hafi ekki sinnt heimavinnunni. Ég held því fram að í þessu máli hafi íslensk stjórnvöld einmitt gætt hagsmuna Íslands. Ég held að í tíð ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hafi menn einmitt unnið heimavinnuna þegar öll helstu og mikilvægustu skref í þessu máli voru tekin. Allt sem gert var gaf vinaþjóðum okkar og samstarfsþjóðum okkar innan EES til kynna að við myndum innleiða orkutilskipunina með þeim undanþágum og fyrirvörum sem þar eru. Við höfum í rauninni gengið lengra. Það er engin sú hætta. Það eru engir þeir hagsmunir sem verið er að tefla í tvísýnu. Það er ekki verið að tefla í tvísýnu neinum hagsmunum íslensks almennings, þvert á móti.

Ef menn taka þá ákvörðun að aflétta ekki hinum stjórnskipulega fyrirvara — ég er einn af þeim sem höfðu miklar efasemdir um alla þessa tilskipun og spurði mig spurninga sem ég leitaði síðan svara við með ýmsum hætti. Ég hafði áhyggjur af því hvort þetta hefði áhrif á samkeppnishæfni íslensks samfélags, samkeppnishæfni fyrirtækja og samkeppnishæfni heimilanna vegna þess að þetta gæti haft áhrif á orkuverð. Ég hafði áhyggjur af því að við værum hugsanlega að framselja eitthvert vald til yfirþjóðlegrar stofnunar sem við ættum enga aðkomu að. Þessar áhyggjur voru raunverulegar og þess vegna skil ég mætavel þegar margir í þessum þingsal og margir landsmenn hafa áhyggjur af því sem við erum að gera.

Það eru auðvitað dæmi um það frá fyrri tíð, sérstaklega á því tímabili þegar Íslendingar sóttust eftir að gerast aðilar að Evrópusambandinu, að hagsmunagæslu okkar var ekki sinnt með nægilega góðum hætti innan EES. Það breyttist og menn byrjuðu að vinna heimavinnuna og gæta hagsmuna lands og þjóðar. Nú höfum við vonandi gengið þannig fram að hinn lagalegi fyrirvari er saumaður inn í þessa þingsályktunartillögu og í rauninni í lagafrumvarp sem liggur fyrir frá hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Niðurstaðan er sú að við erum ekki að fórna neinum hagsmunum. Við erum hins vegar að efna þau loforð, þau vilyrði sem við höfum gefið. Það er enginn lögfræðilegur vafi, herra forseti, á því að allt sem við erum að gera stenst stjórnarskrárákvæði, sem skiptir máli.