149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:13]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki alveg klár á því að ég skilji spurninguna en ég ætla að reyna. Við erum að setja lagalegan fyrirvara ef hv. þingmaður er að vísa til hans. Það er auðvitað gert í samráði og það liggja meira að segja fyrir yfirlýsingar frá samstarfsþjóðum okkar, bæði innan EES, sameiginlegu EES-nefndarinnar, og ekki síður sem skiptir máli líka í mínum huga, þessum vinaþjóðum okkar sem eru í EFTA og eiga aðild að EES.

Eina sem ég er að segja er að þegar við eigum samskipti — við getum tekist á við vinaþjóðir okkar og við eigum að gæta hagsmuna okkar, ekki þeirra, það er auðvitað á okkar forsendum — verðum við líka að gæta að einhverri samkvæmni. Við erum búin að taka öll skref með þeim í þessu ferli, í hverju einasta skrefi höfum við verið samstiga þeim (Forseti hringir.) og aldrei gefið annað til kynna en að við myndum leika leikinn (Forseti hringir.) til enda. Þá segi ég: Ef menn ætla að grípa í neyðarhemilinn skulum við a.m.k. ekki vera svo barnaleg (Forseti hringir.) að halda að það hafi engin áhrif á samskipti (Forseti hringir.) okkar við aðrar þjóðir.

(Forseti (WÞÞ): Forseti vill minna hv. þingmenn á að virða tímamörk.)