149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:26]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég skal viðurkenna að ég er ekki alveg klár á að ég skilji hvert hv. þingmaður er að fara. Ég hef staðið í þeirri trú að það væri almennt ljóst í hugum flestra á Íslandi hvað felst í orðinu lagalegur fyrirvari. Fyrirvarinn byggist á lögum. (GBS: Hvaða lögum?) Við erum núna t.d. að færa í lög — hv. fyrrverandi utanríkisráðherra á nú að vita hvernig við innleiðum tilskipanir og með hvaða hætti o.s.frv. þannig að ég þarf ekki að fara yfir það — reglugerð þar sem hinn lagalegi fyrirvari kemur fram, m.a. á grundvelli þeirra breytinga sem við erum að gera á raforkulögum og eru í frumvarpi sem liggur hér frammi og verður vonandi tekið til afgreiðslu í komandi viku.

Menn geta haldið áfram að ræða hér um hvað felst í lagalegum fyrirvara og kannski er efni til þess að menn fái bara fyrirlestur frá betri manni en mér um hvað felst í lagalegum fyrirvara. Ég veit alveg hvað ég er að gera þegar ég er að undirrita t.d. samning með lagalegum fyrirvara. (Forseti hringir.) Ég veit alveg hvað felst í yfirlýsingu um lagalega fyrirvara almennt í mannlegum samskiptum og svo sem samskiptum við þjóðir.