149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:02]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er af því að ég gagnrýni það sem mér finnst vera gagnrýnisvert. Hv. þingmaður kannast væntanlega við lög um húshitun. Þar breyttist nefnilega dálítið, það má ekki veita einhverjum einum aðila svona ívilnun. Það verða allir að vera jafnir við borðið. Aftur á móti getur notandinn valið af hverjum hann kaupir þjónustu.

Að sjálfsögðu hækkar raforkuverðið hjá Hitaveitu Suðurnesja. Hún var að fara að selja á þeim tíma, ekki satt? Það var miklu arðbærara að koma með hærri gjaldskrá og geta selt á mun hærra verð, fullt af möguleikum í því.

Það er fleira sem ég ætlaði að ná að koma að. Það var þetta með að fjarlægja hindranir. Það tók tíu ár að taka frystiskyldumúrana, en þeir voru einmitt ósanngjörn hindrun. Það er meira af slíku og við myndum fjarlægja ósanngjarnar hindranir sem stuðla að einokun.

Að allt sé til reiðu? Það er allt til reiðu núna, það er nefnilega málið. Þar má leggja sæstreng núna og það væri bara verra núna ef eitthvað er en ef við myndum samþykkja þriðja orkupakkann, miðað við forsendurnar sem settar eru og reglurnar sem við þurfum að sinna eftir þá innleiðingu.