149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:03]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég varð svolítið hissa á svari hv. þingmanns, að hann hefði ekki neinar sérstakar áhyggjur af því að rafmagnið hækkaði þarna til húshitunar á veitusvæði Hitaveitu Suðurnesja við innleiðingu orkupakka eitt, (Gripið fram í.) það væri bara eðlilegt að það gerðist. (Gripið fram í.) Við verðum að átta okkur á því, hv. þingmaður, að þessir notendur voru með sérstakan samning sem Hitaveitu Suðurnesja bar að standa við. Hún gat það hins vegar ekki lengur vegna þess að það var bannað samkvæmt lögum, samkvæmt tilskipun sem kom frá Evrópusambandinu.

Ég spyr, hv. þingmaður: Hvað kemur Evrópusambandinu það við að fyrirtæki niðurgreiði rafmagn til húshitunar á Íslandi, í okkar harðbýla landi? Í mínum huga kemur því það ekkert við. Þess vegna segi ég: Sporin hræða í þessum efnum. Við sjáum hvaða afleiðingar það ákveðna mál sem ég hef rakið hér hefur haft.

Síðan stöndum við frammi fyrir því að væntanlega á að fara að selja rafmagn til Evrópu gegnum sæstreng, segjum kannski eftir 10, 12, 15 ár. Þá gildir bara markaðslögmálið. Sá sem borgar hæst er náttúrlega vænlegasti kúnninn og þá mun rafmagnsverðið hækka. Þetta er bara spurning um lögmál vöru, þjónustu, eftirspurnar o.s.frv. (Gripið fram í.)