149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:09]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að halda því fram að ég þekki innleiðingarferlið allra manna best. Hins vegar ætla ég að benda á það að fræðimenn sem títt eru nefndir, íslenskir, norskir og víðar að, benda á að þegar menn innleiða reglugerðir Evrópusambandsins þá taki þær allar gildi í heild og einhliða viljayfirlýsingar hafi þar lítil áhrif. Það þarf reyndar ekki að biðja fræðimenn að útskýra þetta fyrir okkur því það nægir að kynna sér hvernig Evrópusambandið virkar eins og er bara tiltölulega aðgengilegt á heimasíðu sambandsins þar sem útskýrt er með mjög skýrum hætti hvernig innleiðing reglugerða virkar hjá sambandinu.

Nægi mönnum ekki að líta til leiðbeininga fræðimanna eða kynna sér einfaldlega reglurnar sjálfir gæti verið áhugavert að hlýða á álit stjórnmálamanna sem eru búnir að vera lengur eða byrjuðu mun fyrr í þessum bransa en ég, til að mynda mat fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins, fyrrverandi forsætisráðherra, Þorsteins Pálssonar, sem útskýrði það að hér væri um að ræða lofsverðar blekkingar. Ég er að vísu ekki, eins og ég hef getið um áður, sammála þessum fyrrverandi ráðherra um að þessar blekkingar séu lofsverðar. En það er svo sannarlega rétt hjá honum að um blekkingar er að ræða.

Hvað varðar seinni spurningu hv. þingmanns verð ég að svara henni í seinna andsvari, sýnist mér, því að tíminn er á þrotum.