149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:13]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er eiginlega léttir að heyra, ef ég skildi hv. þingmann rétt, að hv. þingmaður sé stöðugt að endurræsa heimasíðu Evrópusambandsins til að fylgjast með öllum uppátækjum þess og vera viðbúinn því þegar þau kunna að reka á fjörur Íslendinga. Ekki veitir af því.

Svo ég svari spurningu hv. þingmanns varðandi uppbrot fyrirtækja þá er það skýrt tekið fram í þriðja orkupakkanum að hann sé m.a. til þess ætlaður að gera mönnum kleift að brjóta upp það sem kallað er „monopolies“ á ensku, þ.e. ráðandi fyrirtæki á sínu svæði. Það þarf ekkert að líta á þetta sem einhverjar vangaveltur um hvað kunni að gerast því að alveg frá árinu 2009, þegar orkupakkinn tók gildi í Evrópusambandinu, hefur Evrópusambandið verið að reyna að nýta sér þessar heimildir til að brjóta upp stór fyrirtæki á orkumarkaði í Frakklandi, í Þýskalandi, á Ítalíu. Vissulega snerist þetta til að byrja með fyrst og fremst um að aðskilja framleiðslukerfi og dreifikerfi, en ekki bara það, heldur hefur það gengið svo langt að Evrópusambandið hefur leitast við að koma á sérstökum stjórnum, sérskipuðum stjórnum, yfir tilteknar eignir þessara fyrirtækja.

Nú kann það að vera verðugt markmið að brjóta upp fyrirtækin sem þarna eiga í hlut. En það er ekki verðugt markmið að brjóta upp starfsemi Landsvirkjunar.

Ef hv. þingmaður þarf frekari vitnanna við og hv. þingmaður hefur upplýst að hann fylgist vel með vefsíðum Evrópusambandsins þá bendi ég hv. þingmanni á að fara á vefsíðu Council of European Energy Regulators, sem eru samtök orkustofnana þessara (Forseti hringir.) ríkja, og kynna sér hlutverk þeirra.