149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:39]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og ef ég bæti aðeins við það sem kemur fram hjá Skúla Magnússyni varðandi lagaskylduna að leggja sæstreng þá segir að mikilvægt sé að hafa í huga hlutverk sæstrengs í innviðauppbyggingu sem felst í þessu sameiginlega markaðssvæði orkunnar o.s.frv. Hann segir jafnframt að færa megi rök fyrir því að ákvæði um frjáls vöruskipti í sáttmála sambandsins leggi þá skyldu á aðildarríkin að leggja sæstreng.

Jafnframt segir hann að í þessu sambandi skipti túlkun ákvæða sambandsins um aukinn samruna einnig máli. Slíkar skyldur geti stofnast vegna aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu sé horft til ákvæða sambandsins sem snúa að innri markaði með raforku. Þarna er fræðimaður að, eins og hv. þingmaður orðaði það, að velta fyrir sér hlutum sem gætu gerst en eru kannski ekki staðreynd.

Þetta hlýtur að vera það sama og óvissa. Hv. þingmaður hlýtur að geta verið sammála mér í því. Er þá ekki best að eyða óvissunni og fara þessa lögformlegu leið sem við höfum, að fara með málið fyrir sameiginlegu EES-nefndina, þar sem fulltrúar EFTA-ríkjanna sitja, sendiherrar EFTA-ríkjanna og Evrópusambandið, og fá bara undanþágu sem yrði þá vonandi okkur í hag. Þá værum við búin að eyða öllum svona vangaveltum og hv. þingmaður hlýtur að geta verið sammála mér í því að það hlýtur að vera mikilvægt.