149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:44]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar til að þakka hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur fyrir skelegga framsögu sem kom ekki á óvart þar sem hún er ekki einungis þingmaður og lögmaður heldur leikkona. (HVH: Leikmaður.). Áhugaverður upplestur og tilvitnanir í bók prófessors Snyders um harðstjórn sem lýsir einmitt sósíalismanum og þjóðernissósíalisma nasista og fleiri sem hafa aðhyllst þá hugmyndafræði.

Mig langar til að fá fram afstöðu hv. þingmanns, hvort hún sé ósammála því að fari innleiðingin óbreytt í gegn þá geti hún brotið í bága við stjórnarskrá. Í annan stað hvort hún telji að hinir lagalegu fyrirvarar sem settir eru við þingsályktunartillöguna, um innleiðingu þriðja orkupakkans, séu yfir höfuð óþarfir. Ef ekki, ef hún telur þá þarfa, hvort hún telji þá fyllilega fram komna og að þeir liggi fyrir og greining á þeim svo að hægt sé að taka yfirvegaða og upplýsta afstöðu til þeirra, hvort þeir séu þannig úr garði gerðir að það muni ekki koma í bakið á okkur seinna, þ.e. að þeir haldi.