149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:58]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Hér er einfaldlega enginn að kvarta yfir því að þurfa að vinna mikið. En það getur vel verið að það sé mismunandi hversu vel við erum í stakk búin til að vinna langt fram á morgun og mæta svo á fundi. Það má vel vera að hv. þingkona Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir sé betur til þess fallin en ég, sem er farinn að síga á seinni hluta ævi minnar. Mér finnst þetta einfaldlega ekki skynsamlegt. Það eru yfir 100 mál sem bíða. (Gripið fram í.)

Ég vil nota tækifærið líka til að vekja athygli á því að forseti Alþingis mætti í fjölmiðla og hrósaði þinginu og hrósaði sér og öðrum af því að hér hafi hlutirnir flætt í gegn vegna þess að málin hafi komið með svo jöfnu millibili. Þá spyr ég: Af hverju í ósköpunum kom þetta mál svona seint sem skapar núna tappa fyrir öll önnur mál? Það er ekki skynsamlegt (Forseti hringir.) og við eigum ekki að láta það bitna á athygli okkar sem mun fara dvínandi þegar fer að líða (Forseti hringir.) á morguninn.