149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:03]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður talaði um nýjar upplýsingar um lagalega fyrirvara. Það er ekki um neinar nýjar upplýsingar að ræða heldur útskýringar á þeim fyrirvörum sem hv. þingmaður er að óska eftir upplýsingum um. Þær upplýsingar er að finna á bls. 3 í frumvarpinu um innleiðingu reglugerðarinnar, um að ákvæðin um tengd lönd séu ekki í gildi. Um það eru lagalegir fyrirvarar.

Í ræðu hv. þingmanns um orkupakkann sem hann hélt 8. apríl sl. varð honum tíðrætt um fullveldið. Það er svolítið áhugavert að eftir næstum aldarlangt ferli þar sem heimurinn hefur verið að opnast með landamæraleysi og auknum alþjóðasamskiptum og alþjóðaviðskiptum sé fullveldið aftur orðið áberandi í stjórnmálum. Ég hef merkt það hjá andstæðingum þriðja orkupakkans, á orðum þeirra og í ræðum. Sérfræðingar hafa merkt það í takti við aukna áherslu stjórnmálamanna á lokun, þjóðernishyggju og landamæri.

Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort hann telji það virkilega svo að fullveldi íslensku þjóðarinnar sé ógnað með einhverjum hætti með þriðja orkupakkanum og þar með EES-samningnum.