149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:12]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég vísa fullyrðingum hv. þingmanns og formanns utanríkisnefndar um óheiðarleika á bug og ég vísa þeim til föðurhúsanna. Mér finnst þetta giska djarft af hv. þingmanni sem fór frjálslega með sannleikann í sjónvarpsviðtali fyrr í kvöld þegar hún fjallaði um þessi ummæli. Ég var viðstaddur þennan fund. Ummælin voru svar við spurningu frá mér. Ég skildi ummælin á þann veg sem ég hef lýst og ég hef fullan rétt á því að lýsa því hver sé skilningur minn á því án þess að hv. þingmaður fari með dylgjur eða ásakanir um óheiðarleika. Hún ætti að líta í eigin barm, hún ætti að skoða það sem hún lét sér sjálf um munn fara í viðtali þar sem hún var gestur ásamt formanni Miðflokksins fyrr í kvöld.

Varðandi fyrirvarann verð ég að segja að mér finnst hv. þingmaður líka eilítið djarfur að fjalla um hann á þann hátt sem raun ber vitni vegna þess að það sem gerðist í dag var að hinn lagalegi fyrirvari, sem hefur verið veltiás í þessu máli, gufaði upp. Spurt var: Hvar þessi fyrirvari? Þá komu mörg svör. Ég fór yfir þrjú eða fjögur af þeim svörum í ræðu.

Hvernig væri að þeir ágætu hv. þingmenn sem eru fylgjendur málsins litu í eigin barm og skoðuðu hug sinn í ljósi þess að það atriði sem málið er talið velta á hafi gufað upp og sést hvergi? Nýjasta kenningin er sú að hans muni vera að leita í einhverri reglugerð sem er ráðgert að verði gefin út en hefur ekki verið sýnd og ekki kynnt Alþingi. Þetta var sagt hér. Hv. þingmaður getur hent gaman að því eins og hv. þingmaður vill. En þetta eru einfaldlega staðreyndir.

Því miður hef ég ekki tækifæri núna til að svara fleiru en ég mun gera það í síðara svari.