149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:18]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér ber engin skylda til að vera hér og mæla fyrir eða á móti eða með þessu máli nema út frá minni eigin sannfæringu. Mig langar til að fara í smáævintýraferð með hv. þingmanni um þessa fyrirvara alla. Það var ekki þörf fyrir þessa stjórnskipulegu fyrirvara af því að eina valdframsalið sem þeir fela í sér varðar grunnvirki yfir landamæri, ef sæstrengur væri til staðar. Ef það er enginn sæstrengur er ekkert valdaframsal af því að ACER eða ESA getur ekki skorið úr um hvort ágreiningur um reglur varðandi sæstreng eru réttar eða rangar. Það er enginn sæstrengur, þar af leiðandi ekkert valdframsal.

Það hefur komið fram í umræðunni að okkur ber engin skylda til að leggja sæstreng. Bretar geta t.d. ekki komið hingað og sagt: Heyrðu, við ætlum að leggja sæstreng upp að fjörunni hjá ykkur, þið verðið að taka við honum. Nei, það virkar ekki þannig. Við getum ekki heldur gert það á móti. Við getum ekki rennt út sæstreng yfir Atlantshafið, komið að Skotlandi og sagt: Heyrðu, tengið þetta við grunnvirkið hjá ykkur. Það virkar ekki þannig, alls ekki. Það hefur margoft komið fram í umræðunni.

Sæstrengur kemur ekki bara allt í einu af því að Alþingi þarf að koma að þeirri ákvörðun, t.d. með þeim atriðum sem eru lögð fram í þriðja orkupakkanum um öryggisáætlun og landsskipulagsáætlun dreifikerfis. Hvernig fær hv. þingmaður þá út að það sé eitthvað flókið við þessa fyrirvara og þetta valdframsal? Það sé eitthvað óvænt og nauðsynlegt og hryllilegt valdframsal, og ég veit ekki hvað og hvað; fullveldistengt og ég veit ekki hvaða önnur orð hafa verið notuð yfir þetta, þau eru svo mörg. Þegar allt kemur til alls þá snýst þetta bara um reglur um sæstreng milli landanna, ekki um neitt annað.