149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:08]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir ræðuna. Ég saknaði einmitt þessa kafla minnihlutaálitsins úr annarri ræðu hv. þingmanns og það var ágætt að það sjónarmið, sá hluti álitsins, kom inn hér í kvöld.

Það sem mig langar til að spyrja hv. þingmann út í er hvaða lærdóm við megum draga af fyrri samskiptum við EES-kerfið, ef ég leyfi mér að einfalda það, um álitamál sem snúa að íslenskum hagsmunum, hvað varðar samskipti okkar við þessi samstarfsríki okkar. Er ástæða fyrir okkur til að vera lítil í okkur eins og manni heyrist upplegg ríkisstjórnarinnar vera? Eða eigum við að nálgast samskiptin við samstarfsaðila okkar út frá styrk og þeirri stöðu sem við teljum okkur raunverulega hafa samkvæmt þeim samstarfssamningum sem við stöndum í?