149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:09]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Stuðningsmenn, við skulum segja áköfustu stuðningsmenn EES-samningsins, benda gjarnan á að samningurinn sé, eins og þeir orða það, lifandi plagg. Með því er átt við að hann sé ekki alltaf eins og hann var þegar hann var samþykktur í upphafi heldur þróist. Augljóslega bætast stöðugt við hann reglugerðir. Það þekkjum við. En þetta vísar líka til þess að það hvernig menn umgangast samninginn skapi fordæmi og hafi áhrif á framhaldið. Þannig nefndi ég það áðan að það að Íslendingar skuli hafa verið, ég ætla ekki að nota orðið leiðitamir en tilbúnir til að framfylgja því sem ætlast var til almennt af okkur á grundvelli samningsins, duglegir að innleiða, ekki hvað síst í orkumálunum þar sem menn hafi farið umfram það sem krafa var um, hafi skapað það fordæmi að Íslendingar eigi ekki að þurfa á undanþágum að halda nú.

Því segi ég að þegar upp er komið eins umdeilt mál og raun ber vitni er mikilvægt að nota það tækifæri til að undirstrika að við teljum þann rétt sem skrifaður er í samninginn vera virkan. Annars verður sífellt erfiðara eftir því sem á líður að nýta þann rétt þegar, eins og ég nefndi hér dæmi um, menn eru farnir að nota það sem rökstuðning fyrir því að við getum ekki nýtt réttinn að hann hafi ekki verið nýttur til þessa.