149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:59]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni fyrir skelegga ræðu. Hv. þingmaður kom einmitt inn á það í ræðu sinni að þingsályktunartillagan sem er til umræðu væri yfirlýsing þingsins um að ráðherra og ríkisstjórn innleiði orkupakka þrjú. Ég er hjartanlega sammála því. En — og það er þetta stóra en í þessu máli — það er að ákveðnum forsendum gefnum.

Forsendurnar eru þær að það eru lagalegir fyrirvarar við hluta af þeirri innleiðingu. Hv. þingmaður kom mjög skilmerkilega inn á að þessir lagalegu fyrirvarar eru í skötulíki, þó svo að þingmenn hafi keppst við að koma í ræðustól og lýsa því yfir að þeir séu algerlega skotheldir og augljósir.

Ég get ekki séð það, hæstv. forseti, að hinir lagalegu fyrirvarar sem hefur verið teflt fram séu í fyrsta stað skýrir eða skotheldir, því síður að stjórnarliðum beri saman um hverjir þeir eru. Eitt er alveg víst, að hæstv. utanríkisráðherra hefur ekki komið hér og lýst því hverjir þeir eru. (Forseti hringir.) Ef þetta sem eru kallaðir lagalegir fyrirvarar á blaðsíðu 3 (Forseti hringir.) eru fyrirvararnir sem á taka orðrétt upp í innleiðingarreglugerð (Forseti hringir.) er Bleik brugðið. Er hv. þingmaður sammála mér (Forseti hringir.) í því?