149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:08]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir spurninguna. Það er alveg hiklaust rétt hjá hv. þingmanni að sögulega var þetta átak. Það voru mikil átök á sjöunda áratugnum þegar ákveðið var að ráðast í stórvirkjanir og veita orkunni til stóriðju. Þetta var mjög framandi í því þjóðfélagi sem var hér á miðri síðustu öld og gífurleg framkvæmd á þeirra tíma mælikvarða. Auðvitað er þetta ríkt í þjóðinni og vitund hennar, menn horfðu til þess að það kæmu betri tímar þegar búið væri að borga niður stofnkostnaðinn, þ.e. virkjanirnar og dreifikerfin sem þarna var byggt. Það myndi taka áratugi en þá myndi raforkuverð fara lækkandi, þegar við værum búin að greiða niður stofnkostnaðinn. Svo tók bara annað við, fleiri stórvirkjanir og enn þá öflugri dreifikerfi. Auðvitað er þjóðinni mjög annt um að hafa byggt þetta upp í áratugi. Þess vegna er þjóðin mjög, eigum við að segja stressuð yfir þeirri lagasetningu sem við erum að fjalla um.

Herra forseti. Ábyrgð okkar er mikil. Við eigum ekkert að gera þetta klukkan að ganga fjögur að nóttu. Við erum að ræða þetta í síðari umræðu af tveimur. Hún byrjaði í gær og við ætlum að ljúka henni núna klukkan að ganga fjögur að nóttu. Þetta finnst mér ekki mikil virðing við þjóðina. Þegar kannanir sýna að 60–80% þjóðarinnar eru andsnúin þessu (Forseti hringir.) máli finnst mér það ekki virðing við þjóðina að þetta mál skuli ekki vera útrætt.